Orðlaus yfir „skammarlegri“ framgöngu forsetans

Háttsettir embættismenn í bandarískum stjórnmálum keppast nú við að lýsa yfir vonbrigðum og reiði vegna framgöngu Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, á fundi sem hann og Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, áttu í Helsinki í Finnlandi í gær.

Fréttablaðið segir frá.

„Það er engin spurning að Rússar höfðu áhrif á forsetakosningarnar árið 2016,“ sagði Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar þingsins og flokksbróðir forsetans, en Trump sagði á fundinum að hann tæki Pútín trúanlegan og að hann sæi ekki ástæðu fyrir Rússa til að skipta sér af kosningunum.

Rússar ekki bandamenn

Leyniþjónustur Bandaríkjanna greindu frá því árið 2016 að fulltrúar rússnesku leyniþjónustunnar hefðu með tölvuárásum og falsfréttum haft áhrif á kosningarnar þar sem Trump hafði betur en forsetaefni Demókrata, Hillary Clinton.

„Forsetinn verður að gera sér grein fyrir því að Rússar eru ekki bandamenn okkar,“ sagði Ryan enn fremur. Hann er meðal æðstu valdamanna Repúblikanaflokksins. „Rússar hafa reynst fjandsamlegir í garð okkar grunngilda og -hugmynda,“ bætti Ryan við.

John McCain, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins árið 2008 og öldungadeildarþingmaður í Arizona, sagði að hann hefði vart séð jafn skammarlega frammistöðu forseta á sinni lífsleið.