Or-málið orðið að mannlegum harmleik

Tvö helstu umræðuefni Íslendinga um þessar mundir eru byggð á algerum misskilningi og einbeittum vilja til útúrsnúnings; það er ekkert að óttast við þriðja orkupakkann eins og hver lærða greinin af öðrum sýnir og sannar - og nýja hótelið á Austurvelli hreyfir ekkert við kirkjugarðinum á svæðinu, ólíkt því sem hávær mótmæli segja.

Svo mælist Jóni Kaldal, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins og Fréttatímans sem mætir í Ritstjórana í kvöld ásamt Steingerði Steinarsdóttur, ritstjóra Vikunnar, en aðalumræðuefni þáttarins er Orkuveitumálið sem líka virðist byggja á ákveðnum misskilningi; kynferðislegt áreiti og einelti reyndist minna innan fyrirtækisins en hald manna var samkvæmt úttekt á vinnustaðamenningunni þar á bæ. 

Þau eru sammála um að málið hafi breyst í mannlegan harmleik, vopnin hafi algerlega snúist í höndunum á Einari Bárðarsyni, eiginmanni brottrekinnar Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, sem eigi hugsanlega yfir höfði sér kæru fyrir tilraun til fjárkúgunar ef marka megi harðorð bréf hans til yfirmanna OR um meinta óviðurkvæmilega hegðun gagnvart konu hans.

En málið sýni líka hvað fólk er berskjaldað gagnvart opinni umræðu dagsins; aldrei hafi verið auðveldara að taka menn af lífi á samfélagsmiðlum án afleiðinga - og útskúfuninni í tilviki manna sem misstigi sig, megi kannski líkja við fórnarkostnað þess að upplýsa mál sem áður voru þögguð niður.

Ritstjórarnir eru nú hluti frétta- og umræðuþáttarins 21 á Hringbraut á þriðjudagskvöldum.