Opnar tveimur árum of seint

Uppbygging Landspítalans við Hringbraut markar upphaf nýs þjóðarsjúkrahúss. Framkvæmdin við sjúkrahótelið á lóð spítalans hófst árið 2015 og átti að ljúka vorið 2017.

Gunn­ar Svavars­son, fram­kvæmda­stjóri Nýs land­spít­ala ohf. (NLSH) eða því sem nefnist Hringbrautarverkefnið, segir í frétta- og umræðuþættinum 21 í kvöld að hótelið verði afhent Landspítalanum til rekstrar þann 28. janúar næstkomandi og að hótelið opni í apríl.

Spítalinn í heild verður mikið byggingarmannvirki, meðal annars rís nýr meðferðarkjarni ásamt rannsóknarhúsi og bílastæðahúsi og áætlað er að þeim framkvæmdum ljúki árið 2023. Þá verði gjörbreyting á samgöngum í kringum spítalann frá því sem nú er.

„Sterki kosturinn í þessu heildarkonsepti sem við erum með í Hringbrautarverkefninu, sem er spítali, rannsóknarhús sem sameinar ný og ólík rannsóknarsvið hjá spítalanum á einn stað, bílastæðahús, tæknihús og skrifstofuhús, er að sjúkrahótelið er byggt upp eins og á Norðurlöndunum þar sem er verið að setja sambærilegt hús inn á sjúkrahússlóðirnar, innangengt á milli fyrir þá sem eru þar. Þetta er fyrst og fremst fyrir þá sem eru í meðferð eða eru aðstandendur sjúklinga í meðferð,“ segir Gunnar um kosti sjúkrahótelsins.

Deila fyrir gerðardómi

Fé­lagið tók við verk­inu ókláruðu 30. nóv­em­ber af verk­tak­an­um Munck Íslandi ehf. vegna ágrein­ings sem nú er fyrir gerðardómi. Fram hefur komið að NLSH vilji leggja dagsektir á Munck upp á 900.000 krónur á dag vegna tafanna. Munck telur aftur á móti að verkkaupinn, NLSH, beri ábyrgð á töfunum og krafa Munck í garð NLSH er þá á sama hátt stjórnunarkostnaður per dag. „Um það er deilan,“ segir Gunnar.

Gunnar segist ekki óttast að framkvæmdin, sem er áætlað að muni kosta vel á þriðja milljarð, fari fram úr kostnaðaráætlun. „Ég óttast það ekki en vissulega er það sagt með fyrirvara um það hver niðurstaðan úr deilunni er,“ segir Gunnar og vísar til gerðardómsins, sem er nýtekinn til starfa og því ekki ljóst hvenær niðurstöðu hans er að vænta.

21 hefst kl. 21:00 á Hringbraut.