Ömurlegi hljómburðurinn skrifaðist alltaf á mig

Hörður Áskelsson, kantor Hallgrímskirkju segist hafa verið húðskammaður árum saman fyrir ömurlega hljóðvist í guðshúsinu á Skólavörðuholtinu - og hann hafi mátt sitja undir þeim skömmum í áratug, haldið raunar að ferill hans sem organista myndi bíða mikinn skaða af.

Það hafi tekið dágóðan tíma að klára kirkjuna og koma henni í það endanlega horf sem hæfði hljóðfæraflutningi, en stóra pípuorgelið hafi svo breytt öllu, sé eitt það veglegasta í heimi hér - og enn sé hann að átta sig á möguleikum þess og mögnuðu tónsviði.

Hann er gestur Sigmundar Ernis í Mannamáli i kvöld, á miðjum Kirkjulistadögum sem fram fara í Hallgrímskirkju í byrjun júní - og það er heldur betur áheyrilegt að heyra hann tala um stærsta hljóðfæri landsins sem hann er með í fanginu í vinnunni sinni - og ræða uppeldið á Akureyri og í Bárðardal, svo og allan sönginn í heimili sínu; pabbinn var jú virtúós á músíksenunni í höfuðstaðnum, en mamman alltaf talið sig laglausa; það hafi ekki verið fyrr en hún stóð á níræðu og Hörður fékk hana til að syngja með sér Sofðu unga ástin mín á elliheimilinu Hlíð að hún áttaði sig á því að hún héldi alveg lagi.  

Svo er talað um Ingólf Guðbrandsson, tengdaföður Harðar, þann músíkjöfur sem setti sannarlega svip sinn á listalífið í landinu á síðustu öld.

Mannamál byrjar klukkan 20:00 í kvöld.