Ömurlegar viðbyggingar

Nýr pistill Björns Jóns Bragasonar:

Ömurlegar viðbyggingar

Mynd: Haraldur Guðjónsson
Mynd: Haraldur Guðjónsson

Ég hef gaman af því að sýna erlendum vinum mínum gamla bæinn og staldra þá ætíð við Stjórnarráðið sem reist var sem fangelsi á árunum 1765 til 1770 og er eitt af elstu steinhúsum landsins. Það er eitthvað fallegt við það að valdamesti embættismaður landsins hafi jafnlátlaust húsnæði undir skrifstofur sínar og að það sé ekki varið með víggirðingu og vopnuðum vörðum.  

Vart þarf að deila um menningarsögulegt gildi hússins. Þar hafði æðsti embættismaður stjórnvalda hér á landi aðsetur allt frá árinu 1815 og þar hafa verið skrifstofur stjórnarráðs Íslands frá stofnun, 1904, þó starfsemi þess hafi í tímans rás teygt verulega úr sér og ráðuneytum fjölgað.

Nú fyrir skemmstu voru kynntar niðurstöður í hönnunarsamkeppni um viðbyggingu við Stjórnarráðið, en útlitsteikningar að verðlaunatillögunni má sjá hér að neðan. Hús er vitaskuld miklu meira en ytra byrði þess og væntanlega má gera ráð fyrir því að fyrirhuguð viðbygging muni gagnast vel starfsemi forsætisráðuneytis. Smekkur manna á útliti húsa er æði mismunandi og af teikningum að dæma er viðbyggingin hin fallegasta mannvirki, en mér sýnist á öllu að heildarmyndin versni til muna. Nýbyggingin fyllir nánast upp í grasblettinn aftan við Stjórnarráðið og gerir það að verkum að hið aldna og virðulega hús nýtur sín ekki sem skyldi.

Sporin hræða. Handan Lækjartorgs reisti Íslandsbanki hf. einlyft bankahús úr tilhöggnu grágrýti árið 1904. Ákaflega vandað og fallegt hús í klassískum stíl, eins og sjá má af gömlum ljósmyndum. Íslandsbanki varð síðar að Útvegsbanka Íslands og árið 1962 átti sér stað eitthvert versta arkitektúrslys íslenskrar sögu þegar bætt var fjórum hæðum ofan á gamla steinhúsið. Viðbyggingarnar við gamla Útvegsbankann kunna að vera vandaðar hver um sig og þó deila líklega fæstir um að heildarsvipurinn er miklu verri en áður.

Ef við göngum nokkur skref í vestur og út að horninu við Pósthússtræti blasa við höfuðstöðvar Landsbankans. Það hús var upphaflega byggt árið 1899 en skemmdist í brunanum 1915. Húsið var síðan endurreist í stærri mynd árið 1923 eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar húsameistara. Þessi endurgerð var öll í sama stíl og upphaflega húsið sem hélt fyrri einkennum og varð enn glæsilegri bygging.

Árið 1938 var reist viðbygging við bankann í fúnkisstíl. Guðjón Samúelsson hafði hugmyndir um að byggt yrði við bankann í sama stíl en ákveðið var að fara allt aðra leið. Þessi viðbygging í fúnkisstíl var síðan hækkuð árið 1969. Þrátt fyrir að hún hafi að stærstum hluta verið reist fyrir meira en 80 árum er mér til efs að bæjarbúar hafi enn tekið hana í sátt.

Til eru vítin að varast þau. Steinhúsin gömlu eru mikilvægur hluti af menningararfi okkar. Mig langar því að gera það að tillögu að fallið verði frá áformum um viðbyggingu við Stjórnarráðið. Þess í stað verði forsætisráðuneytinu fundinn nýr staður í Safnahúsinu við Hverfisgötu, en það myndi skapa glæsilega umgjörð um ráðuneytið. Forseti Íslands gæti þá á nýjan leik flutt skrifstofu sína í Stjórnarráðshúsið. Þar með yrði hinni öldnu byggingu sýndur enn meiri sómi en nú er. Um leið mætti spara ríkissjóði mikla fjármuni og afstýra mögulegu skipulagsslysi á túninu aftan við Stjórnarráðið.

Svarthvítar myndir eru fengnar frá Viðburður.is

Nýjast