Nafngiftin er engin tilviljun

Í gær var drengurinn Óli Gunnar skírður í Reykjavík. Nafngiftin er engin tilviljun.

Foreldrarnir, Rafn Stefán Rafnsson og Þórey Gyða Þráinsdóttir, eru miklir stuðningsmenn Manchester United og hefur litli drengurinn gengið undir þessu nafni á samfélagsmiðlum frá fæðingu. Hann kom enda í heiminn um það leyti sem Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær tók við sem þjálfari liðsins.

Solskjær er sem kunnugt er á meðal goðsagna Manchester United, ekki síst eftir að hann skoraði sigurmark á elleftu stundu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Bayern München árið 1999.

Foreldrunum þótti ástæðulaust að sýna nokkra feimni í framhaldinu og gáfu drengnum því einfaldlega nafnið Óli Gunnar.

Þess má geta að fótboltaáhugi er víðar í fjölskyldunni, en systir Þóreyjar, Sonný Lára, er markvörður Íslandsmeistara Breiðabliks og hefur einnig spilað nokkra leiki með íslenska landsliðinu.