Ole anton gefst ekki upp: leitar til umboðsmanns alþingis – ákvörðunin skaðar ísland

Hval­ur hf. fékk nýverið leyfi til veiða á langreyðum. Leyfið gild­ir í fimm ár en mbl.is birti svar við fyrirspurn sem miðillinn sendi at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu.

Áður hafði Hringbraut greint frá misvísandi svörum varðandi úthlutun leyfis. Ólafur Ólafsson skipstjóri á skipinu Hval 9 sagði til dæmis í fréttum Stöðvar 2 fyrir um tveimur mánuðum að leyfið fyrir langreyðaveiðum hefði borist of seint, í lok febrúar, og því yrði engin hvalveiðivertíð hjá Hval hf. í ár. Hið rétta var þó að fyrirtækið hafði ekki fengið neitt leyfi og sótti raunar ekki um það fyrr en 14. mars.

Sjá einnig: Hvalur hf. fær fimm ára leyfi til langreyðaveiða

Nú hefur leyfið verið veitt og samkvæmt reglugerð sem Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra gaf út 19. fe­brú­ar eru veiðarnar frjálsar þeim sem fengið hafa leyif þar til tiltekinn heildarfjöldi dýra hefur verið veiddur. Fyrir yfirstandandi ár má veiða samtals 209 langreyðar. Í fyrra voru 145 langreyðar veiddar við landið og stóð vertíðin yfir í samtals 98 daga frá 19. júní.

Ole Anton Bieltvedt, stofnandi dýra-, náttúru- og umhverfisverndarsamtakanna Jarðarvina hefur áður gagnrýnt Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra harðlega. Í frétt á Hringbraut fyrr í mánuðinum var haft eftir Ole Anton um Kristján Þór:

Sjá einnig: Sakar Hval hf. um ósannindi: Nýtt leyfi aldrei gefið út

„Við lýsum hneykslun okkar á því, að þú virðist hafa beygt þig fyrir þröngum hagsmunahópi „hvalveiðimanna og sægreifa“, gegn reglum og lögum landsins, dýravelferð og þjóðarhag.“ Ole Anton bætti við: „Við krefjumst þess hér með, að þú dragir leyfisveitinguna til baka eða segir af þér ráðherraembætti ella [...] Við teljum að útgáfa nýs veiðileyfis standist hvorki kröfur um góða og heilbrigða stjórnunarhætti, né reglur og lög, en slíkt þýddi vanhæfi þitt til að fara með það ráðherraembætti, sem þú gegnir.“

Ole Anton hefur nú leitað til Tryggva Gunnarssonar umboðsmanns Alþingis og biðlar til hans að taka málið fyrir. Ole Anton segir:

„Sl. föstudag, 5. júlí, ákvað sjávarútvegsráðherra, að veita Hval hf nýtt fimm ára veiðileyfi, til langreyðaveiða, þrátt fyrir margvíslega vanrækslu og meint brot Hvals hf á fyrra veiðileyfi, reglugerð og lögum og gegn margvíslegum þjóðarhagsmunum.”

Sjá einnig: Fara fram á að Kristján segi af sér

Heldur Ole Anton fram að leyfisveitingin standist ekki kröfur um skynsamlega eða rétta og ábyrga stjórnsýslu. Ole Anton segir:

„ ... heldur þjóni hún þröngum hagsmunum fárra, gegn hagsmunum almennings og gegn vilja meirihulta þjóðarinnar, gegn hagsmunum útflutningsatvinnuveganna - ferðaþjónusta meðtalin - og gegn óskum og vilja allra okkar viðskipta- og vinaþjóða og merkinu Ísland til skaða og ávirðingar.

Förum við þess vinsamlegast á leit við yður, að þér beitið valdi embættis yðar til að sporna við eða stöðva þessa óbærilegu leyfisveitingu framkvæmdavaldsins.

 Við treystum því, að þér getið fjallað um þetta mál sem allra fyrst, þar sem mikið er í húfi af margvíslegum ástæðum, eins og þér munið skilja.”