Skólakerfið hafnaði mér algerlega

Sólveig Anna Jónsdóttir, nýr formaður Eflingar í Mannamáli:

Skólakerfið hafnaði mér algerlega

Það er sláttur á Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem mætir í kröftugt og innihaldsríkt viðtal til Sigmundar Ernis í nýjasta Mannamáli, en samtal þeirra er allt í senn hispurslaust, opinskátt og róttækt, ef svo má segja.

Hún greinir ofboðslegt óþol úti í samfélaginu vegna bágra kjara almennings, fólks sem nurli saman nokkrum þúsund köllum til að gera kannski vel við sig einu sinni á ári, en svo bili þvottavélin og fjárhagurinn hrynji. Og hún segir sögur af stallsystrum sínum á leikskólanum Nóaborg sem lifi í óttanum af því að vera sagt upp leigunni, skárra sé það í ttilviki íslensku kvennanna, en oft ömurlegra hjá þeim erlendu sem búi ekki við nokkurt öryggisnet - og svo snerta þessar sögur líka karlana sem hafa kannski allt sitt líf, jafnvel frá barnsæsku unnið láglaunastörfin og geti ekki hætt að vinna undir sjöttugt, því konan sé veik og bóndinn hafi ekki efni á því að fara á eftirlaun.

Hún segir samfélagið móttækilegt fyrir róttækum röddum á vinnumarkaði vegna þess að öll alþýða fólks sé kannski fyrst núna að átta sig á því, áratug eftir hrunið, að það stóð aldrei til að laga eitt eða neitt fyrir það; misskiptingin hafi haldið áfram og aukist fremur en hitt, lægstu berstrípuðu launin séu til dæmis skattlögð nú, ólíkt því sem var fyrir fáum áratugum - og í sjálfu sér sé niðurstaða hennar að okkur hafi sem þjóð mistekist að búa til almennilegt samfélag.

Og hún talar um æsku sína á heimili foreldranna Jóns Múla og Ragnheiðar Ástu, pabbi sinn hafi verið náttúruafl, mamma alltaf svo hjálpfús - og hún megi teljast afar heppinn með foreldra; minnist í þeim efnum allra bíóferða með þeim fámála en skapríka Jóni Múla sem hætt hafi að drekka og gerst grænmetisæta og umhverfisverndarsinni þegar hún var að stálpast, kommúnistinn sjálfur - og nefnir bækurnar á náttborði mömmu sem gerðu það að verkum að hún kenndi sé sjálf að lesa sé ensku til gagns upp úr tíu ára aldri á því tónríka og bókmenntasinnaða heimili sem var hennar skjól í bernskunni.

En skólinn hafi hafnað henni, hún hafi alltaf fengið ágætiseinkunnir fyrir ritgerðir og íslensku en dregist hratt aftur úr í raungreinunum - og ekkert hafi verið gert á þeim tíma til að bjarga henni frá falli úr skólakerfinu. Hún hafi þó öðlast sjálfstraustið á ný þegar hún flutti sem ung tveggja barna móður til Bandaríkjanna og dvalið þar í átta ár með manni sínum, en saman eigi þau afskaplega óvenjulega ástarsögu eins og hún segir svo skemmtilega frá. Bandaríkin hafi hins vegar skilað henni aftur heim á klakann sem svo róttækri manneskju með miklu óþoli fyrir rasmisma og ójöfnuði að hún hafi gert byltingu innan búsáhaldabyltingarinnar - og fengið sekt fyrir, en sjái ekki eftir neinu.

Mannamál er frumsýnt öll fimmtudagskvöld klukkan 20:30, en er endursýnt um helgina og einnig aðgengilegt á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

 

 

Nýjast