Okkur hefur mistekist á húsnæðismarkaði

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Hringbrautar skrifar:

Okkur hefur mistekist á húsnæðismarkaði

Hrapallega hefur okkur mistekist á húsnæðismarkaði á undanliðnum árum. Ungt fólk kemst varla lengur úr foreldrahúsum. Eldra fólk flýr unnvörpum úr borginni, ellegar til nærliggjandi landa. Þær eignir sem á annað borð bjóðast á frjálsum markaði eru ýmist keyptar upp af sterkefnuðum fjárfestum eða leigufélögum sem er rekin í stórhagnaðarskyni.

Félagi minn, búsettur í Kaupmannahöfn, hafði orð á þessu um daginn, en þá var hann staddur í fríi yfir hátíðarnar í gamla fæðingarlandinu. Hann kvaðst ekki skilja hvernig eyjaskeggjarnir í norðri hefðu eyðilagt íbúðamarkaðinn með okurlánastefnu, pólitískri þröngsýni og séreignablindni. Heimamenn hefðu gleymt því að húsnæðismál heyra til mannréttinda.  

Sjálfur leigði hann í blokk, 90 fermetra íbúð og greiddi fyrir hana að andvirði 100 þúsund krónur á mánuði, allt innifalið. Og leigan hefði lækkað á síðustu árum. Lífeyrissjóðurinn, sem ætti blokkina, hagaði leiguverðinu í samræmi við minnkandi fjármagskostnað af henni. Getur þetta gerst á Íslandi, spurði félaginn? Og svari nú hver fyrir sig!  

 

Nýjast