Ógnaði húsráðendum með hnífi

Lögreglunni á Austurlandi barst tilkynning snemma í gærmorgun um að farið hafði verið inn í hús í umdæminu þar sem húsráðendum var þar á meðal ógnað með eggvopni, einn aðili hlaut smávægilega áverka sem ekki voru tilkomnir vegna eggvopnsins. Lögreglan hafði upp á viðkomandi aðilum í gær og handtók tvo karlmenn sem eru grunaðir í málinu, skýrslutökur af þeim fóru fram í gær en þeim var sleppt að því loknu.

Málsatvik eru talin liggja fyrir og segir lögreglan ekki ætla að tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Þá segir lögreglan að fjórtán fíkniefnamál hafi komu upp í umdæmi þeirra um síðast liðnu helgi. Að sögn lögreglu voru flest þeirra í tengslum við Lunga-listahátíð ungs fólks, sem haldin var á Seyðisfirði.  Þar af eru tvö mál til rannsóknar, en í öðrum tilvikum var um svokölluð neyslumál að ræða.