Oddný: „allt fyrir auðmennina virðist vera mottó ríkisstjórnarinnar“

„Noregur er ríkur af auðlindum og það er Ísland líka. Munurinn er hins vegar sá að Norðmenn eru óhræddir við að leggja á auðlindagjöld sem renna í ríkissjóð og til sveitarfélaga. Þ[ví] erum við hins vegar afskaplega léleg í. Nægir að líta á veiðigjöldin sem útgerðir greiða en þau eru á pari við gjaldið sem reykingamenn greiða (tóbaksgjaldið). Og fjármálaráðherra vill alls ekki auðlindarentuskatt á orkufyrirtæki.“

Á þessum orðum hefst færsla Oddnýjar Harðardóttur, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í gær. Hún deilir þar frétt Stundarinnar, þar sem var greint frá því að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra væri mótfallinn auðlindarentuskatti að norskri fyrirmynd.

Oddný segir að íslenska ríkið fái arðgreiðslur af Landsvirkjun og virkjunum í opinberri eigu en njóti ekki auðlindarentunnar af orkufyrirtækjum í einkaeigu. „Hún rennur óskipt til eigenda þeirra fyrirtækja sem greiða sér arð sem er sérlega hár vegna þess að þeir fá auðlindina á silfurfati.“

Í skýrslunni „Auðlindarenta og nærsamfélagið,“ sem Hagfræðistofnun HÍ gaf út árið 2013 og Stundin vísar til í umfjöllun sinni er auðlindarenta skilgreind á eftirfarandi hátt:

„Takmarkað framboð auðlinda getur gert eigendum þeirra kleift að njóta arðsemi sem er umfram það sem gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum með sambærilega áhættu. Hagræn renta er skilgreind sem greiðslur til framleiðsluþátta, s.s. fjármagns og vinnuafls, umfram fórnarkostnað. Umframarðsemi er oft nefnd auðlindarenta (e. resource rent). Í flestum öðrum greinum atvinnulífsins myndi arðsemi umfram það sem gengur og gerist í öðrum atvinnugreinum með sambærilega áhættu laða að fleiri fyrirtæki sem, að öllu óbreyttu, leiðir til aukins framboðs og lægra verðs. Afleiðingin er samdráttur í arðseminni þangað til hún verður í samræmi við aðrar sambærilegar atvinnugreinar. Hið takmarkaða framboð auðlinda getur hins vegar leitt til þess að umframrenta verður viðvarandi.“

Allt fyrir auðmennina

Oddný segist hafa spurt út í auðlindarentuskatt á orkufyrirtæki á þingi fyrir tveimur árum síðan. „Þegar ég spurði almennt um orkuskatt a[ð] fyrirmynd Norðmanna fyrir tveimur árum taldi fjármálaráðherra að hann gæfi 7 milljarða króna. Fullyrðingar um að auðlindarentuskattur verði til þess að raforkuverð hækki eru úr lausi lofti gripnar enda er samkeppni á raforkumarkaði og slíkur skattur skiptir orkufyrirtækin í opinberri eigu engu. Þau greiða þá bara lægri arð til eigenda sinna í staðinn.“

„Við eigum að njóta auðlindarentunnar og byggja upp innviði og fjölbreytt atvinnulíf allt í kringum landið. Allt fyrir auðmennina virðist hins vegar vera mottó ríkisstjórnarinnar í þessu sem öðru,“ segir hún að lokum.