Óábyrgt daður um ees-útgöngu

Alþjóðahyggjan, sem opnaði heiminn upp á gátt um og undir síðustu aldamót, á undir högg að sækja. Einangrunarhyggjan virðist vera að ryðja sér til rúms í ríkari mæli og hér heima á Íslandi eru stöku pólitíkusar farnir að daðra við útgöngu úr EES án þess að gera sér nokkra grein fyrir afleiðingunum.

Þetta var tónninn í Ritstjóraþætti vikunnar á Hringbraut þar sem fjölmiðlamennirnir Björgvin G. Sigurðsson og Ingimar Karl Helgason settust gegnt Sigmundi Erni og fóru mikinn, en Björgvin, hokinn líka af þingreynslu, bætti því við að ástæður þessa bakslags hins opna samfélags mætti aðallega rekja til þess að heimskapítalisminn hefði fengið svo hastarlega á baukinn í efnahagshruninu að hann hefði ekki verið samur eftir - og raunar langt því frá; sökudólginn hefðu menn fundið í landamæraleysinu, orsökina fyrir óförunum væri að finna í óheftu flæði fjármagns og fólks, en einfaldleiki umræðunnar í dag snerist þar af leiðandi um að reisa girðingar, einangra þjóðir og slá á hörpu þjóðerniskenndar; allt sem að utan kæmi væri vont og hættulegt. 

Og þeir Ingimar Karl voru sammála um að sum hver pólitísku öflin á Íslandi freistuðu þess nú að næra þessa umræðu eins og frekast væri unnt, svo sem með rakalausum spuna um þriðja orkupakkann - og í því efni væri ekkert árangursríkara en að teikna upp hræðilega Grýlu af stórum alþjóðlegum apparötum eins og Evrópusambandinu sem ætlaði sér að gleypa litlar þjóðir. Jafnvel væri byrjað að láta að því liggja að Íslendingar ættu að taka sér Breta til fyrirmyndar og segja skilið við landsins part af ESB, sumsé EES-samninginn, en ekkert af þessu pólitíska liði þyrði hins vegar að teikna upp þá sviðsmynd sem þá myndi blasa við Íslandi; afturför um hálfa öld í frjálsum viðskiptum og uppbyggingu vinnumarkaðarins með hrikalegum afleiðingum fyrir stærstu atvinnugreinarnar, sjávarútveg og ferðaþjónustu sem reiða sig algerlega á frjáls og greið viðskipti við umheiminn.