Nýr formaður kosinn á laugardag

Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Ísland býður sig fram sem formaður Öryrkjabandalagsins og mætir á Þjóðbraut til Lindu Blöndal í kvöld. Kjörið er á laugardag en einnig býður Þuríður Harpa Sigurðardóttir sig fram en hún var gestur þáttarins fyrir skömmu.

Einar Þór sem er er þroskaþjálfi og lýðheilsufræðingur, segist vilja sérstaklega vekja athygli á fjölbreytileikanum innan ÖBÍ, allt frá hreyfifötluðum til langveikra og þeirra sem kljást við einstaka sjúkdóma eða geðræn veikindi. Einar hefur verið ötull í mannréttindabaráttu ýmis konar, hann greindist sjálfur með HIV fyrir 30 árum og segist hafa „lifað dauðann af“, þar sem á þeim tíma voru ekki jafn góð lyf í boði líkt og nú.

Innan ÖBÍ eru 41 aðildarfélög – hátt í 30 þús einstaklingar eru innan vébanda þeirra svo með réttu má segja að ÖBÍ snerti allar fjölskyldur landsins með einum eða öðrum hætti.

Einar segir að formannskjörið sé allt á vinsamlegum nótum en víst er að það verður all spennandi.

Aðalafundarfulltrúar eru rúmlega 130 talsins frá öllum aðildarfélögunum.