Nýir þættir í samvinnu við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Sjónvarpsstöðin Hringbraut tekur brátt til sýninga nýja sjónvarpsþætti um heilsu og lífsstíl í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þar sem lögð verður áhersla á bætt lífsgæði almennings.

Samningur þessa efnis var undirritaður í dag af hálfu Óskar Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sigmundar Ernis Rúnarssonar, sjónvarpsstjóra Hringbrautar, sem sýna mun þættina, en framleiðandi þeirra er SERES hugverkasmiðja ehf. Á myndinni að ofan með þeim Óskari og Sigmundi Erni eru þau Jónas Guðmundsson, fjármálastjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Helga María Guðmundsdóttir, dagskrárgerðarmaður og hjúkrunarfræðingur sem mun annast umsjá þáttanna sem hefja göngu sína fimmtudagskvöldið 31. október.

\"Allt sem lýtur að heilsu ratar í æ ríkari mæli í fréttir,\" segir Sigmundur Ernir og fagnar þessum samningi. \"En við umræðu og upplýsingu á þessu sviði þarf að vanda sig og sýna ábyrgð. Því er þetta samstarf við fagfólk Heilsugæslunnar okkur svo mikilvæg,\" bætir hann við. \"Við höfum núna aðgang að breiðum hópi sérfræðinga sem getur upplýst almenning af fagmennsku og reynslu. Það er ómetanlegt fyrir lítinn en vaxandi fjölmiðil.\"

Þættirnir munu bera heitið Heilsugæslan - og þar verður lögð áhersla á að fræða landsmenn um allt sem lýtur að heilsueflingu, meðferðarúrræðum og forvörnum. Þættirnir eru unnir í samvinnu og nánu samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem rekur 17 heilsugæslustöðvar á suðvesturhorni landsins. Í hverjum þætti mæta sérfræðingar til að svara áleitnum spurningum sem varða heilsu og lífsstíl landsmanna – og gefa þeim góð ráð til að bæta lífsgæði sín. Þættirnir eru teknir upp í myndveri Hringbrautar, en auk þess er farið á vettvang heilsugæslunnar úti í bæ og leitað ráða hjá þjóðþekktum Íslendingum sem luma á góðum heilsuráðum. Markmið þáttanna er að færa almenning nær heilsugæslunni, fræða hann og efla vitund fólks um heilsufar, bætt lífsgæði og ábyrg úrræði í þeim efnum.