Nýir þættir: fjallaskálar íslands

Fjallaskálar Íslands er ný 18 þátta röð um landnám Íslendinga til fjalla og óbyggða sem hefur göngu sína á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld, en framleiðsla þáttanna er samvinnuverkefni stöðvarinnar og Ferðafélags Íslands. Fyrsti þátturinn er á dagskrá í kvöld kl. 20:00 þar sem Landmannalaugar verða sóttar heim.

Upptaka fyrstu sex þáttanna fór fram síðastliðið sumar og haust og verða þeir sýndir nú í desember og fram í janúar, en aðrir sex verða teknir upp næsta sumar og loks þeir síðustu um mitt ár 2020. Og óhætt er að segja að efniviðurinn sé glæsilegur; íslensk náttúra í sinni tignarlegustu mynd - og sakar auðvitað ekki að veðrið lék við sjónvarpsfólk Hringbrautar við upptökurnar á þessu ári.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, dagskrárstjóri Hringbrautar og umsjármaður þáttanna, segir Fjallaskála Íslands vera eitt metnaðarfyllsta verkefni í bráðum fjögurra ára sögu Hringbrautar: \"Hér vildum við vanda sérstaklega vel til verka, enda er ekki annað samboðið íslenskri náttúru,\" segir hann og rifjar upp vegferðina fyrr á árinu þar sem farið var jafnt í Landmannalaugar, Þórsmörk, Lónsöræfi, Kverkfjöll, Dyngjufjöll og Herðubreiðarlindir í gullfallegu veðri.

\"Hugmyndin að baki þáttunum er að segja sögu fjallaskálanna sem voru forsenda þess að menn byrjuðu að kanna óbyggðir landsins á nítjándu og tuttustu öldinni þegar óttinn við útilegumenn og illvætti var byrjaður að linast, en svo segjum við líka frá gönguleiðunum í kring - og sérstöðu svæðanna með aðstoð valinkunnra sagnaþula og sérfræðinga, svo sem Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings, Ólafs Arnar Haraldssonar forseta Ferðafélags Íslands og heimamanna á hverjum stað. Þættirnir eru veisla fyrir augu og eyra,\" segir Sigmundur Ernir og segir áhorfendur geta beðið spennta eftir að sjá og njóta þeirra. Kvikmyndatöku önnuðust Bjarni Svanur Friðsteinsson og Friðþjófur Helgason, en klipping er í höndum Loga Sigursveinssonar.

Fjallaskálar Íslands, fyrsti þáttur, Landmannalaugar, hefst sem fyrr segir í kvöld klukkan 20:00, landsmönnum öllum að kostnaðarlausu.