Ný stjórn og breytt heimsmynd

Það var farið yfir vítt fréttasvið í Ristjóraþætti vikunnar þar sem kapparnir Bjarni Harðarson og Hallgrímur Thorsteinsson leiddu saman hesta sína, báðir vel nestaðir reynslunni úr fréttaskrifum síðustu áratuga.

Leitin að Birnu Brjánsdóttur og hlutskipti fjölmiðla við að feta þar einstigið milli upplýsingar og oftúlkunar var til umræðu í byrjun þáttarins, en megin þunginn fór þó í umræðu um eðli, lífslíkur og áherslur nýrrar ríkisstjórnar. Þá var góðum tíma varið í greiningu á breyttum heimi á ofanverðri jarðarkringlunni, en hugmynd Íslendinga um vestræna samvinnu er ef til vill að brenglast þar sem Bretar hrista af sér Evrópusambandið á sama tíma og Bandaríkin gefa Atlantshafsbandalaginu fingurinn - og er einkar áheyrilegt að hlusta á greiningu Bjarna og Hallgríms á stöðunni vestan hafs og austan þegar gömlu vesturveldin eru við það að liðast í sundur frammi fyrir æ ríkari völdum Austurlanda.

Ritstjórarnir eru endursýndir á Hringbraut í dag og næstu daga.