Ný leiguúrræði fyrir íslendinga á spáni

Helgafell er heiti nýs íbúðahótels sem Íslendingar reka á Hvítu ströndinni, skammt sunnan við Torreveja á suðausturströnd Spánar, en það er sniðið að þörfum eldra fólks, hvað aðgengi og þjónustu varðar, þótt íbúðirnar séu líka álitlegur kostur fyrir alla stórfjölskylduna sem á auðvelt með að sameinast í rúmgóðum húsunum.

Íbúðahótelið er staðsett í Quesada, í hæðunum ofan við vötnin kunnu á þessu veðursæla svæði, en þau eru steinefnarík og þykja heilnæm í meira lagi, eins og rannsóknir hafa ítrekað staðfest. Fyrir vikið hefur fjöldi íbúðahverfa risið í nágrenninu, stutt frá mörgum rómantískum sveitaþorpum og inn á milli stórborganna Alicante og Murcia, með strendurnar í Torreveja í fárra mínútna akstursfjarlægð.

Í sjónvarpsþættinum Einfald að eldast, sem frumsýndur verður á Hringbraut í kvöld er stöllunum Díönu Þórðardóttur og Ragnheiði Guðbrandsdóttur fylgt eftir á þesum slóðum, en þær eru í hópi þúsunda Íslendinga á efri árum sem eru að huga að því hvernig best er að koma sér fyrir í góða veðrinu og góða verðinu á suðaustanverðum Spáni. Og þá er leigukosturinn kannski svarið við spurningunni, en viðmælendur þáttarins segja að vel fari á því að leigja fyrst íbúð á svæðinu til lengri eða skemmri tíma áður en jafn stór ákvörðun og að kaupa sér fasteign ytra er tekin. Meðal þeirra sem svo mæla er Þorvaldur Halldórsson, söngvarinn þjóðkunni, sem er á meðal viðmælenda þáttarins í kvöld, en hann segir leigukostinn einkar þægilegan og öruggan, svo og ódýran.

Þátturinn byrjar klukkan 20:00 í kvöld.