Ný framboð hafa málefnaleg áhrif í öðrum flokkum

Ný framboð hafa málefnaleg áhrif í öðrum flokkum

 

Ný framboð hafa smám saman verið að breyta flokkamynstrinu. Það víkur við hefðbundnum valdahlutföllum. En í aðdraganda haustkosninga sýnast þau einnig hafa merkjanleg áhrif á  málefnaumræðu og jafnvel stefnumótun annarra flokka.

Á sínum tíma hafði Kvennalistinn afgerandi áhrif á pólitíska umræðu og stefnumótun rótgróinna stjórnmálaflokka. En aðrir nýir flokkar sem komið hafa fram á síðustu árum og eru nú úr sögunni hafa ekki náð því að hafa umtalsverð áhrif að þessu leyti.

Gífurlegt fylgi Pírata í skoðanakönnunum hefur dalað eftir því sem liðið hefur á sumarið og dregið hefur nær kosningum. En ný staða þeirra hefur haft mest áhrif á málflutning Samfylkingarinnar.

Stjórnarskrármálið er skýrasta dæmið um þetta. Þar höfðu báðir flokkarnir fallist á að taka þátt í nefndarstarfi sem miðaði að því að ná samkomulagi um breytingar í áföngum. Píratar sneru við blaðinu á lokametrunum. Þá sögðust þeir aðeins vilja óbreyttar tillögur stjórnlagaráðs í heild; annað hvort það eða ekkert.

Samfylkingin ákvað í beinu framhaldi að fara í kjölfar Pírata. Málefnaleg forysta Pírata gat ekki verið augljósari. Sumir áhrifamenn í Samfylkingunni hafa í kjölfarið staðhæft að allt sem Píratar segja sé einnig þeirra stefna. Ef til vill má ekki leggja of mikla merkingu í slík ummæli. En þau sýna þó að Píratar hafa valdið ákveðnu málefnalegu óöryggi í Samfylkingunni.

VG hefur aftur á móti ekki haggast vegna Pírata. Besta dæmið um það eru umræðurnar í vor sem leið um mögulegt kosningabandalag vinstri flokkanna. Katrín Jakobsdóttir formaður VG sagði þá afdráttarlaust að Píratar yrðu fyrst að sanna sig sem vinstri flokkur til þess að geta verið með.

Hugsanlega hefur þessi einarða afstaða ráðið miklu um að Píratar hafa í sumar fært sig úr stöðu nálægt miðjunni yst yfir á vinstri vænginn. Það á svo eftir að koma í ljós hvort þessi málefnalegu umskipti eiga eftir að hafa meiri áhrif á fylgi Pírata eða VG.

Fram til þessa hefur Viðreisn ekki beinlínis fært neinn flokk til í afstöðu, hvorki til hægri né vinstri. En hún hefur eigi að síður haft mjög greinileg áhrif á málefnalega umræðu innan Sjálfstæðisflokksins.

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins talaði unga fólkið fyrir sams konar breytingum í gjaldeyrismálum og Viðreisn hefur lagt áherslu á. Þó að þær tillögur hafi ekki náð fram að ganga sýnir þetta að margir innan flokksins vilja ná til þeirra frjálslyndu kjósenda sem þannig hugsa.

Frá því í vor hefur Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþings viðrað frjálslyndar hugmyndir um kerfisbreytingar  á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs sem eru mjög í ætt við það sem Viðreisn hefur talað fyrir í þeim efnum. Forysta flokksins hefur að vísu ekki hlustað á þennan málflutning. En þetta er eigi að síður skýrt dæmi um hvernig nýtt pólitískt afl hefur áhrif á málefnalega umræðu í öðrum flokkum.

Kári Stefánsson er að sönnu ekki stjórnmálaflokkur í venjulegum skilningi. En undirskriftarsöfnun hans um eflingu heilbrigðiskerfisins og málafylgja í kjölfarið hefur einnig haft augljós áhrif á pólitíska umræðu um þau mál í öllum flokkum.

Nýir kraftar eru þannig með ýmsu móti að hreyfa við málefnastöðunni á vettvangi stjórnmálanna.

 

 

 

 

Nýjast