Nú hrína villigeltir sjálfstæðisflokksins

Aukin fyrirferð villigaltanna í Sjálfstæðisflokknum er á meðal umræðuefna í líflegum Ritstjóraþætti vikunnar þar sem meðal annars er rætt um áberandi ókyrrð og jafnvel óeiningu á stjórnarheimilinu, en þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar..

Gestir þáttarins að þessu sinni eru þeir Guðmundur Andri Thorsson, ritstjóri Tímarits Máls og menningar og Kristján B. Jónasson, ritstjóri hjá útgáfufyrirtækinu Crymogeu, en þeir eru sammála um að nýir tímar séu runnir upp í Sjálfstæðisflokknum; gamli formaður flokksins, Davíð Oddsson hafi haldið flokknum saman á langri formannstíð sinni, en nú hafi þingmenn flokksins greinilega meira sjálfræði og geti tjáð sig með opnara hætti en einatt áður, altént fari þeir margir á svig við stefnu ríkisstjórnarinnar og lýsa yfir afdráttarlausri andstöðu við framlögð stjórnarmál, en það hefur verið fáheyrt innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins á síðasta aldarfjórðungi.

Straumhvörfin í frönskum stjórnmálum eru einnig til tals í þættinum, en þar var fulltrúum gömlu valdaflokkanna í landinu hafnað í fyrri umferð forsetakosninganna sem hefur ekki gerst í næstum 60 ár. Er gamla stjórnmálaelítan komin í vörn? Eru viðvarandi breytingar að verða á afstöðu almennings til atvinnustjórnmálanna?

Þá er rætt um vanda Óttars Proppé, heilbrigðisráðherra sem virðist kominn á milli steins og sleggju í afstöðunni til einkarekstrar eða ríkisrekstrar í heilbrigðisþjónustu og loks er spurt hvort tímamót séu að verða í afstöðu almennings til stóriðjuuppbyggingar hér á landi, en alkunn eru vandræði United Silicon suður í Helguvík sem hafa fengið hárin á íbúum Suðurnesja til að rísa í meira lagi á síðustu vikum.

Ritrstjórarnir eru rumsýndir öll þriðjudagskvöld klukkan 21:00.