„nú eru þeir aftur komnir á kreik. hvernig mátti þetta gerast?“

„Það var und­ar­leg til­finn­ing að lesa frá­sagnir fjöl­miðla af hluta­fjár­kaupum nokk­urra fjár­festa í Arion banka. Ekki það að þeir hafi borið afkára­leg nöfn eða rit­háttur þeirra verið óvenju­leg­ur. Eitt­hvað var það sem ýtti við hug­skoti mínu. Ég kann­að­ist við öll þessi nöfn. Hvað­an? Jú, úr aðdrag­anda og eft­ir­mála Hruns­ins.“ Þetta segir Þröstur Ólafsson hagfræðingur í pistli á Kjarnanum.

Í pistli sínum skrifar Þröstur að nú séu það sömu menn sem settu þjóðfélagið á hliðina sem séu aftur að koma sterkir inn í viðskiptalífið.

„Nú eru þeir aftur komnir á kreik. Hvernig mátti þetta ger­ast? Urðu þessir spor­göngu­menn hrun­inna spila­borga með almannafé ekki líka gjald­þrota? Þeir sátu þó undir stýri. Eða höfðu þeir tím­an­lega komið eigin fjár­munum í skjól? Þeir virð­ast a.m.k. nú, eiga fúlgur fjár. Það er ein af þeim ráð­gátum sem almenn­ingur hefur ekki fengið nægi­lega skýr­ingar á, hvernig tókst að koma öllum þessum fjár­munum undan án eðli­legrar vit­undar yfir­valda.“

Þröstur bendir einnig á það hvernig menn nýttu sér íslensk lög til að komast undan því að greiða skatta.

„Gleymum þeim miklu milli­færslum með erlent sparifé sem þöndu út og sprengdu að lokum mark­að­ina. Horfum fram­hjá nán­ast óend­an­legum leik­fléttum með fjár­muni sem búnir voru til af bönk­unum og af bíræf­inni spá­kaup­mennsku. Þetta hefði aldrei getað gerst nema íslensk lög hefðu haldið skatt­und­an­komu­leiðum opn­um. Þekkt eru til­vik þar sem íslensk fyr­ir­tæki og ein­stak­lingar sem störf­uðu einnig á erlendri grund, skil­uðu engum árs­reikn­ingum yfir félög sín erlend­is. Íslenska eig­and­anum bár­ust engar tekjur að utan.“