Notkun samfélagsmiðla mest á íslandi – metnotkun hjá eldri borgurum

Áætlað er að um 91 prósent Íslendinga noti samfélagsmiðla og mælist þar með hæst á meðal EES-landa og aðildarríkja Evrópusambandsins. Næst mest notkun mældist í Noregi, þar sem áætlað er að um 82 prósent noti samfélagsmiðla. Lægsta hlutfallið er í Frakklandi, einungis 42 prósent. Þetta eru niðurstöður rannsóknar Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Metnotkun er hjá Íslendingum á aldrinum 65 til 74 ára í samanburði við aðrar þjóðir. Samkvæmt rannsókninni nota 65 prósent Íslendinga í þeim aldurshópi samfélagsmiðla, en meðaltal Evrópusambandsþjóða var einungis 19 prósent í sama flokki. Næst mest notkun í þessum aldurshóp mælist í Norður Makedóníu, en þar nota 55 prósent fólks á aldrinum 65 til 74 ára samfélagsmiðla. Til samanburðar er lægsta hlutfallið í þessum aldurshóp hjá Frökkum, eða einungis 13 prósent.

„Þessi aldurshópur getur fylgst með börnunum sínum og barnabörnum sínum í gegnum samfélagsmiðla,“ segir Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, félagsfræðingur og ráðgjafi hjá Streituskólanum, í samtali við Morgunblaðið.

Ísland er einnig með hæst hlutfall notenda á aldrinum 16 til 24 ára, 98 prósent, en fram kemur í rannsókninni að notkunin sé mun svipaðri milli landa hjá ungu fólki. Næstflestir notendur í þessum aldursflokki eru í Danmörku, Tékklandi, Svartfjallalandi og Króatíu, eða 97 prósent.

Guðrún Katrín segir að notkun samfélagsmiðla þurfi ekki endilega að vera neikvæð. „Það er ýmislegt neikvætt og annað jákvætt við notkunina. Það er svo margt í dag sem við getum séð inni á samfélagsmiðlum – við getum fylgst með fjölskyldunni og fréttamiðlum þar til dæmis.“

Eyjan.DV.is greindi á dögunum frá niðurstöðum nýrrar skýrslu um samfélagsmiðlanotkun ungs fólks, sem var pöntuð af Norrænu ráðherranefndinni. Meginniðurstaða skýrslunnar var sú að samfélagsmiðlar einir skipti ekki sköpum fyrir líðan ungs fólks. Engar sannanir væru fyrir því að samfélagsmiðlar væru skaðlegir ungu fólki. Ungu fólki sem líði almennt vel líði sömuleiðis vel á samfélagsmiðlum og öfugt.