Norðmenn tóku gull og silfur í bruni karla

Það er engin breyting á röð efstu þjóða í keppninni um verðlaunapeningana eftir 6. keppnisdag á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang. Frændur okkar Norðmenn eru enn í öðru sæti á eftir Þjóðverjum þó svo að þeir hafi frækilega bætt gulli og silfri við safnið í sögulegum sigri í bruni karla.

Aksel Lund Svindal varð fyrsti Norðmaðurinn til að vinna brunkeppni á Ólympíuleikum og jafnframt elsti gullverðlaunahafi leikanna í alpagreinum fyrr og síðar, 35 ára gamall. Hann náði að keyra neðsta hluta brautarinnar á undrahraða, þrír fyrstu millitímarnir voru ekki vænlegir til sigurs.

Landi Aksels, Kjetil Jansrud, mátti sætta sig við silfrið með 12 hundraðshlutum úr sekúndu lakari tíma, sárgrætilegt fyrir hann eiginlega, því á ólympíuleikunum í Sochi fyrir fjórum árum var hann líka í seilingarfjarlægð frá brungullinu, 10 hundraðshlutum úr sekúndu frá sigri.

Aftenposten í Noregi sagði í frétt sinni um brunkeppnina að snjóstrókurinn hafi staðið aftan af skíðum Svindals eins og hvít strik á eftir þrýstiloftsflugvél og gat þess að Hákon krónprins hafi lyft höndum til himins af fögnuði.

Heimsmeistarinn frá Sviss, Beat Feuz, mátti sætta sig við bronsið.