Noomi rapace í nýrri íslenskri kvikmynd

Sænska leikkonan Noomi Rapace mun leika annað aðalhlutverkanna í kvikmyndinni Dýrið undir leikstjórn Valdimars Jóhannssonar. Um er að ræða fyrstu kvikmynd Valdimars í fullri lengd og skrifar hann einnig handritið að myndinni ásamt Sjón. Kvikmyndamiðstöð Íslands greinir frá og vísar til fréttar Variety.

Rapace skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún lék í Millennium þríleiknum, sem var byggður á skáldsögum sænska höfundarins Stieg Larsson. Hefur hún einnig leikið í Hollywood myndum á borð við Sherlock Holmes: A Game of ShadowsPrometheus og The Drop.

Dýrið fjallar um Maríu (Rapace) og Ingvar sem búa á afskekktum sveitabæ. Þegar lítil og óvenjuleg vera kemur inn í líf þeirra verður breyting á högum þeirra sem færir þeim mikla hamingju um stund. Hamingju sem síðar verður að harmleik. 

Rapace átti heima á Flúðum um þriggja ára skeið í æsku og fyrsta kvikmyndahlutverk hennar var í kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Í skugga hrafnsins, þegar hún var aðeins sjö ára gömul. Hún segir í viðtali við Variety: „Ég hef aldrei gert neitt þessu líkt áður og get ekki beðið eftir að hefja tökur og snúa til róta minna á Íslandi.“

Á Twitter síðu sinni segist Sjón himinlifandi með að handritið sem hann skrifaði með Valdimar hafi fengið jafn hæfileikaríka leikkonu til að fara með aðalhlutverkið.

Hrönn Kristinsdóttir og Sara Nassim framleiða fyrir framleiðslufyrirtækið Go to Sheep og Piodor Gustafsson og Erik Rydell eru sænskir meðframleiðendur myndarinnar. New Europe Film Sales sjá um sölu og dreifingu myndarinnar á alþjóðavísu.

Áætlað er að tökur hefjist í maí á þessu ári.