Vinkona matthíasar og klemens gagnrýnir þá harðlega: veifuðu palestínu-klútum fyrir eigið egó - ekkert nema skömm fyrir allt ísland

„Af hverju veifaði Hatari klútunum þarna en ekki á sviðinu? Um leið og ljóst var að Ísland kæmist ekki í toppsætin, þegar þeir höfðu engu að tapa, þegar það var ekki lengur hægt að reka þá úr keppninni, þá veifuðu þeir klútum, gerðu eitthvað. Ekki fyrir Palestínu, heldur fyrir eigin réttlætingu og egó. Til að halda andliti gagnvart þjóðinni og það virkaði.“

Þetta segir Nína Hjálmarsdóttir vinkona þeirra Matthíasar Tryggva Haraldssonar og Klemens Hanningan í pistli sem hún birtir á Facebook um atburðinn þegar Hatari-sveitin birtist með Palestínu-klúta. Hefur það vakið mikla athygli, verið umdeilt og sveitin fengið bæði skömm og hrós fyrir. Þá vilja þúsundir manna útiloka Ísland frá Eurovision.

Nína hefur áður gagnrýnt þátttöku Hatara í Eurovision  en í ítarlegum pistli á Stundinni sem vakti mikla athygli sagði Nína að hún hefði í upphafi verið mikill aðdáandi sveitarinnar, verið persónulegur vinur og einnig unnið með þeim. Nína sagði:

„Þegar ég, fyrir um ári síðan, frétti af fyrirhugaðri þátttöku þeirra í keppninni fannst mér hugmyndin frábær og ég hugsaði með mér að það yrði gaman að hrista aðeins upp í þessari stöðnuðu keppni. Eftir að kom í ljós að keppnin yrði haldin í Ísrael ímyndaði ég mér að þeir hefðu hætt við, myndu bíða kannski í eitt ár. En þvert á móti þykir þeim víst núna ennþá meiri ástæða til þátttöku.“

Þegar Nína frétti svo að Hatari ætlaði að taka þátt í keppninni þrátt fyrir að hún væri haldin í Ísrael fannst henni það skjóta skökku við. Þá gagnrýndi hún einnig framkomu hópsins, raddbeitingu, yfirbragð og klæðnað sem og myndbandið.  

„Klæðnaðurinn ber einnig með sér ýmis tákn BDSM-hreyfingarinnar. Ég spurði sjálfa mig hvaða tilgangi það ætti að þjóna fyrir Hatara að eigna sér (e. appropriate) þessa menningu og þessa sögu, nema þá til að vera kúl. En það var fleira. Ég átti erfitt með að leiða það hjá mér þegar þeir síðar bættu við tveimur kvenkyns dönsurum á sviðið, sem hafa það eina hlutverk að skreyta og magna upplifunina. Nú voru strákarnir búnir að taka á sig birtingarmynd valdsins, á meðan konurnar voru sýndar sem undirgefnar, vélrænar og raddlausar.“

Þá sagði Nína á öðrum stað: Nú var þetta ekki lengur leikur. Nú var þetta spurning um hvað það þýðir að notfæra sér þennan vettvang sem Eurovision er til að koma sjálfum sér og list sinni á framfæri undir yfirskini mannréttindabaráttu, í þessu tilfelli baráttu þjóðar sem í marga áratugi hefur þurft að búa við kúgun og harðræði. Í lok pistilsins í Stundinni sagði Nína: „Ef ég þyrfti að svara þeirri spurningu hvort mér finnist betra að sá sem velst sem fulltrúi Íslands syngi hefðbundið lag, frekar en að hann sviðsetji pólitískan gjörning, þá er svar mitt „já“. Já, mér finnst betra að Friðrik Ómar fari til Tel Aviv að syngja um hyldýpi ástarinnar og láti eins og ekkert sé. Mér finnst það betra heldur en að fyrir okkar hönd fari þarna hópur sem í einfeldni sinni gefur út pólitískar yfirlýsingar sem hvorki eiga sér samsvaranir hjá okkur hér heima né heldur hjá þeim sem verða fyrir kúguninni.“

Nína heldur svo áfram í dag að gagnrýna þá Matthías og Klemens. Nína sakar þá um að nýta sér Palestínu til að verða frægir og þeir hafi ekki tekið neina áhættu.

„Myndi hugsa mig tvisvar um áður en þú kallar þá bjargvætta og hetjur [...] Hustuðu ekki á Palestínumenn heldur seðjuðu whita-saviour-complex okkar allra. Þetta er ekkert nema skömm fyrir allt Ísland. Þessi bjargvættarímynd er andstæð hagsmunum Palestínu en tilvalin til að íslensku þjóðinni geti fundist hún vera best í heimi.“

Þá segir Nína einnig að samtökin BDS, sem berjast fyrir sniðgöngu Ísrael hafi fordæmt Hatara. „Þá fór þetta bara að snúast um að halda blekkingunni uppi svo íslensku þjóðinni gæti liðið vel með sig, og þess vegna veifuðu þeir þessum klútum. Fréttirnar síðan hafa ekkert snúist um Palestínu, heldur bara um Hatara og Ísland. Það að Hatari hafi farið í Eurovision er þegar alveg nógu slæmt en að setja sig í þessa hetjustöðu og notfæra sér Palestínu til að verða heimsfrægir er ennþá verra.“