Nauðgun fær nýja skilgreiningu

Alþingi samþykkti í gærdag frumvarp Viðreisnar um breytingu á kynferðiskafla almennra hegningarlaga. Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Markmið þess er að setja samþykki í forgrunn við skilgreiningu á nauðgun. Samkvæmt nýju lögunum eru öll tvímæli tekin af um að samþykki sé forsenda kynmaka. 

Þetta felur í sér að horfið verður frá því að skilgreina nauðgun út frá verknaðinum sjálfum. Í stað þess verði samþykki sett í forgrunn. Það verður skortur á samþykki til samræðis eða annarra kynferðismaka sem skilgreinir nauðgunina. 

Ragnhildur Bragadóttir, prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands, sagði m.a. í umsögn um frumvarpið að lögfesting skilgreiningar nauðgunar út frá samþykki sé eðlilegur þáttur í þróun réttarins og þar sé leitast við að tryggja að lögin séu í samræmi við réttarvitund almennings.

Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands kom fram að um nauðsynlega breytingu hafi verið að ræða til samræmis við Istanbulsamninginn og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

 Afar fátítt er að þingmannafrumvörp komist í gegnum þingið og séu samþykkt. Aðallega eru samþykkt frumvörp ríkisstjórnarinnar.  

Í ræðu við flutning frumvarpsins sagði Jón Steindór að frumvarpið sé liður í því að breyta viðhorfum sem feðraveldi fortíðar hefur skapað og eru enn ríkjandi eða eimir sterkt af á ýmsum stöðum. Með frumvarpinu sé horfið frá þeim karllægu sjónarmiðum sem endurspeglast víða að við tilteknar aðstæður eigi karlmaður næstum rétt á kynlífi með konu. Þá eru þau viðhorf lífseig að þegar fólk er í sambandi, hvort sem það er innan hjónabands eða utan, ryðji það með einhverjum hætti úr vegi kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti þegar kynlíf á í hlut.