Nagli rekinn í afturdekk alexöndru - vonar að málið sé ekki tengt því að hún sé transkona né störfum hennar í borgarstjórn

„Ég lenti í því óskemmtilega atviki þegar ég kom að bílnum mínum í kjallara Ráðhússins í gærkvöldi, eftir langan borgarstjórnarfund, að farið hafði verið inn í hann í leyfisleysi, gramsað í öllum hólfum og geymslum, og farið í gegnum íþróttatöskuna mína.“

Frá þessu greinir Alexandra Briem vararborgarfulltrúi Pírata og transkona í færslu sinni á Facebook.

„Þar sem ég sá ekki að neinu hefði verið stolið, nema paratabs sem ég var með í hanskahólfinu, ákvað ég samt að fresta því að fara til lögreglunnar að tilkynna það, þó ég hafi hringt til að láta vita,“ segir Alexandra sem segist í sjálfu sér ekki hafa kippt sér mikið upp við þjófnaðinn.

Í morgun tók benti hjálpsamur ökumaður Alexöndru á að afturdekk bílsins var loftlaust.

„Ég rúlla inn á bensínstöð sem ég var lukkulega að keyra framhjá til að bæta úr því. Þá sé ég að það er búið að reka nagla í dekkið. Ég veit svo sem ekki fyrir víst að það sé um sama atvik að ræða, gæti bara hafa verið óheppni. En ég er ekki mikið að keyra yfir byggingarsvæði eða þannig, svo mér finnst sennilegra að viðkomandi hafi gert þetta viljandi,“ segir Alexandra.

Greinir hún frá því að nafnspjöld hafi verið í hólfinu á milli sætanna í bílnum sem hafi verið komin út um allan bíl.

„Það hefur ekki verið neinn vafi á að um minn bíl væri að ræða. Ég vona innilega að um tækifæris-skemmdarverk hafi verið að ræða, því ef þetta tengist störfum mínum í borgarstjórn, eða því að ég sé trans, þá er það fullkomlega fyrir neðan allar hellur. Ég tilkynni þetta til lögreglu og vonandi eru myndavélar í bílastæðikjallaranum sem varpa ljósi á málið.“