Mynd dagsins: gunnar í áfalli – óhugnanleg sjón blasti við - „leit út fyrir að vera mannslíkami“

Gunnar A. Birgisson leiðsögumaður var á ferðalagi um Austfirði ásamt pari þegar þau töldu sig sjá látna manneskja um tvö hundruð metra frá veginum. Fólkið var skammt frá Heinabergslóni þegar við þeim blasti óhugnanleg sjón. Gunnar segir í samtali við DV:

„Ég sá þarna eitthvað sem leit út fyrir að vera mannslíkami sem lá og það leit alveg þannig út þangað til við vorum komin alveg upp að þessu. Við héldum í rauninni bara að við værum að koma að einhverri manneskju sem væri í neyð eða að þetta væri líkfundur.“

Þau drifu sig út úr bílnum og að því sem þau töldu vera manneskju. Fljótlega kom í ljós að um brúðu var að ræða. Gunnar segir að fólkinu hafi fyrst verið verulega brugðið en svo létt.

Þegar þau óku um 100 metrum lengra kom í ljós lítið skilti þar sem stóð að um leikmynd væri að ræða. Gunnar segir:

„En þá spyr maður hvaða fáviti setur upp skilti talsvert eftir að maður er búinn að rjúka út úr bílnum, hlaupandi að hugsanlegum líkfundi eða manneskju í neyð?“ Gunnar bætir við:

„Ég talaði ég við lögreglukonu og hún sagði þetta vera grafalvarlegt mál, því ef það hefði einhver komið að þessu sem hefði ekki þorað að koma nógu nálægt. Þá hefði þetta bara verið allsherjar útkall sem hefði farið í gang, bara meiriháttar dæmi.“