Mynd dagsins: eyðilegging skuggahverfisins og skúlagötunnar til skammar

Egill Helgason birti mynd dagsins á Eyjunni. Um er að ræða gamla ljósmynd af Völundi sem stóð við Skúlagötuna. Egill Helgason segir að eyðilegging Skuggahverfisins og Skúlagötunnar sé einhver sú sorglegasta í sögu borgarinnar. Egill segir:

„Við sjáum þarna hvað Völundur var falleg bygging með turni sínum og reykháf. Þarna voru líka verksmiðjuhús Sláturfélagsins og gamla Kveldúlfs, en fyrir aftan var hið lágreista Skuggahverfi með timburhúsum sínum. Þau voru ekki stór eða ríkmannleg – en byggðin hafði þokkafullan svip þar sem hún stallaðist upp holtið.“

Þá bendir Egill á að eitt sinn hafi Njálsgata og Grettisgata verið taldar ómerkilegustu götur í Reykjavík, fátæklegar og jafnvel sagðar vera slömm. Það hafi staðið til að rífa húsin þar og leggja bílagötu. Egill bætir við:

 „Nú hafa hús við þessar gömlu götur verið gerð upp – þetta er svæði með einstökum reykvískum svip.“ Egill bætir við:

„Líkt hefði getað farið með Skuggahverfið, ef það stæði, enduruppbyggt líkt og götur á Skólavörðuholti og í Þingholtunum, væri þetta ein af perlum borgarinnar með fjölskrúðugu mannlífi, svæði þar sem laðaði að sér fólk og væri gott að ganga sér til yndisauka.“

En það var ákveðið að fara aðra leið. Húsin við Skúlagötu voru rifin og byggt blokkir við Lindargötu. Egill segir:

„Þar sem núna stendur þarna er stíllaus hrærigrautur nútímaarkítektúrs sem spannar tímann frá sirka 1985 og fram til okkar daga, það sem byggt var fyrst er þegar farið að eldast mjög illa – og einhvern veginn er maður viss að eins fer með hinar nýrri byggingar.“