Mun meira framboð af katrínu olgu en eftirspurn

ViðskiptaMogginn birtir mjög athyglisverða frétt í dag um að Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka hafi gert alvarlega tilraun til að láta stjórn Borgunar ráða vinkonu sína Katrínu Olgu Jóhannesdóttur sem forstjóra Borgunar sem ríkisbankinn á meirihluta í. Stjórnin fór ekki að þessum fyrirmælum og réði Sæmund Sæmundsson í starfið. Birna mun hafa tekið þessu svo illa að hún tilkynnti tveimur af þremur stjórnarmönnum að þeir yrðu settir út úr stjórn Borgunar. Erlendur Magnússon, þrautreyndur bankamaður, og Sigrún Helga Jóhannesdóttir víkja því úr stjórn Borgunar á komandi aðalfundi vegna reiði Birnu Einarsdóttur.

 

Það er á margra vitorði að Katrín Olga hefur víða knúið dyra til að komast í stóra stjórnunarstöðu eftir að hún var sett af sem starfandi stjórnarformaður Já.is. Hún á ennþá sæti í stjórn Icelandair Group hf. Þar var tilkynnt um talsverða uppstokkun á yfirstjórn í síðasta mánuði og tilfærslu á framkvæmdastjórum, auk uppsagna og ráðningar nýrra stjórnenda. Katrín mun hafa sótt það fast að fá eina af þeim framkvæmdastjórastöðum sem losnuðu en það gekk ekki eftir. Það virðist vera talsvert meira framboð af Katrínu Olgu en eftirspurn þessa dagana.

 

Framganga Birnu Einarsdóttur vekur mikla athygli. Spurningar hljóta að vakna um framkomu hennar í þessu máli og gera verður ráð fyrir því að Bankasýsla ríkisins láti málið til sín taka. Bankastjóri ríkisbanka getur ekki látið eins og hann eigi bankann. Birna hefur notað afl bankans til að koma ýmsum vinkonum sínum á framfæri með nokkuð áberandi hætti. Katrín Olga er eitt besta dæmið um það. Bankinn hefur stutt hana til setu í stjórn Icelandair frá árinu 2009 þegar bankinn réði yfir miklu hlutafé í Icelandair. Einnig hefur hún verið í stjórn sjóðsins Akurs innan bankans, sem m.a. fjárfesti myndarlega í Fáfni olíuleitarútgerð sem strandaði og olli hluthöfum milljarðatapi. Íslandsbanki á ekki lengur neitt hlutafé í Icelandair og því er bakland Katrínar horfið varðandi stjórnarsetu í félaginu. Aðalfundur Icelandair verður haldinn þann 8. mars nk.

 

Forstjórar ríkisfyrirtækja þurfa að gæta sín jafnvel enn betur en stjórnendur annarra stórfyrirtækja.Ríkisbankar og önnur ríkisfyrirtæki eru jú eign allra landsmanna. Varðandi valdabaráttu í Valitor virðist Birna Einarsdóttir hafa gengið býsna langt. Jafnvel út fyrir öll mörk.

 

Hún hefur gert margt vel sem stjórnandi Íslandsbanka við afar erfiðar aðstæður eftir hrun. Það væri leitt ef hún þyrfti að hrökklast úr starfi vegna vanhugsaðrar einkavinavæðingar. Bankaráð og Bankasýsla ríkisins komast samt ekki hjá því að láta málið til sín taka og meta framtíð Birnu í bankanum eftir þetta upphlaup.

 

Rtá.