Mótmæli vegna sundrunar fjölskyldna

Um 4000 manns hafa skrifað undir á lista sem gengur á netinum á sérstakri íslenskri facebooksíðu, þar sem ríkisstjórnin er hvött til að fordæma aðgerðir bandarískra stjórnvalda gegn innflytjendum við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna.
 
Bandarísk yfirvöld hafa undanfarnar vikur aðskilið börn frá foreldrum sínum við komuna til Bandaríkjanna þar sem foreldrarnir eru grunaðir um að vera ólöglega á ferð inn í landið.

Mótmæli eru skipulögð á morgun í Reykjavík. Á fyrrnefndri fb síðu er þessi tilkynning:

„Við ætlum að hittast á Austurvelli með kerti og mótmælaspjöld og ganga þaðan að bandaríska sendiráðinu. Við krefjumst þess að aðskilnaði barna og foreldra stoppi umsvifalaust. Og við krefjumst þess að mannúðlega sé komið fram við flóttafólk allsstaðar.

Við göngum fyrir mannúðlegri og opnari heimi. Þar sem manneskjur eru manneskjur óháð þjóðerni. Við lokum ekki börn í búrum.

Gangan er ekki bara mótmæli gegn ómannúðlegri stefnu Bandaríkjanna gagnvart flóttafólki frá suðurameríku. Gangan er meðmæli með mannúðlegri stefnu í bæði Bandaríkjunum og Evrópu. Á Ítalíu hefur björgunarskipum verið bannað að koma til hafnar, á Grikklandi er flóttamannabúðir handan við grindverk. Þetta er alþjóðlegt vandamál sem við sem land Í Schengen þurfum líka að axla ábyrgð á. En ástæða þess að við göngum núna er framkoma Bandaríkjastjórnar gagnvart börnum og foreldrum. Við göngum fyrir mennskari heim. Heim þar sem skipum er ekki vísað frá landi og þar sem börn eru ekki lokuð í búrum“.

Í frétt á Mbl.is í dag segir „Sí­fellt meira er að koma í ljós varðandi aðbúnað barn­anna og hafa jafn­vel smá­börn verið tek­in frá for­eldr­um sín­um og send í sér­stak­ar búðir fyr­ir börn yngri en þrett­án ára. Jafn­vel börn á fyrsta ári. Þegar Rachel Maddow fréttamaður hjá AP sagði frétt­ina af búðunum í Suður-Texas brast hún í grát og endaði með því að gef­ast upp á því að flytja frétt­ina“. 

„Lög­fræðing­ar og lækn­ar sem hafa heim­sótt búðirn­ar í Rio Grande segja að þarna séu leik­her­bergi yf­ir­full af grát­andi smá­börn­um“, seg­ir í Mbl.is sem vísar í Guar­di­an.