Mögulegt mislingasmit í flugvél icelandair

Sóttvarnarlæknir hefur sent farþegum og áhöfn sem flaug með Icelandair frá Lundúnum til Reykjavíkur þann 14. febrúar síðastliðinn tilkynningu vegna möguleika á mislingasmiti um borð. Svipuð tilkynning var send farþegum og áhöfn sem flaug með Air Iceland Connect frá Reykjavík til Egilsstaða daginn eftir. RÚV.is greinir frá.

Ásdís Ýr Pét­urs­dótt­ir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við RÚV að mislingasmit hafi verið staðfest hjá einum farþega Icelandair vélarinnar en ekki er vitað um fleiri smit að svo stöddu. Við staðfestingu smitsins hafi visst ferli í samvinnu við sóttvarnarlækni farið í gang og er tilkynningin hluti af því.

Fólkið er hvatt til að leita læknis ef það fær einkenni mislinga, sérstaklega ef það hefur aldrei verið bólusett gegn þeim. Einkennin eru sögð vera hiti, kvefeinkenni, roði í augum og/eða útbrot. Þeir farþegar sem verði varir við slíkt ættu að hafa samband við lækni.