Móðir Jóns Þrastar segir fjölskylduna kannski aldrei fá svör: „Það er það sem er svo erfitt“

Hanna Björk Þrastardóttir er gestur í 21 í kvöld:

Móðir Jóns Þrastar segir fjölskylduna kannski aldrei fá svör: „Það er það sem er svo erfitt“

Hanna Björk og Jón Þröstur
Hanna Björk og Jón Þröstur

Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar Jónssonar síðan hann hvarf sporlaust í Dyflinni á Írlandi þann 9. febrúar síðastliðinn. Fjölskylda hans hefur leitað hátt og lágt á svæðinu án árangurs í að verða fimm mánuði.

Móðir Jóns Þrastar, Hanna Björk Þrastardóttir, lét á dögunum hafa eftir að sér að hún teldi að hann hefði fallið fyrir eigin hendi. Hún er gestur Sigmundar Ernis í sérstakri útgáfu af frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Í einlægu viðtali ræðir Hanna Björk um son sinn, leitina, vonina og óvissuna sem hefur fylgt leitinni og af hverju Hanna Björk hafi á endanum hafi orðið sannfærð um að Jón Þröstur hafi tekið eigið líf.

Aðspurð um hvort hann hafi reynt eitthvað viðlíka áður segir Hanna Björk: „Ekki svo ég viti. Þunglyndi, þetta er ekki hans skapgerð. Ég tala við hann kvöldið áður en hann fer [til Írlands]. Ég hringi í hann á föstudeginum um miðjan daginn, bara svona að vita hvort allt hafi gengið vel, maður gerir það. Heyrði í honum, og hann var bara eins og hann var sjálfur og á að sér að vera. Síðan veit ég ekki meir.“

Jón Þröstur hvarf um hádegisbil á laugardeginum 9. febrúar þegar hann gekk út af hóteli sínu. Hanna Björk veltir því fyrir sér hvað hafi gerst á þessu tímabili. „Hvað gerist frá þeim tíma, frá miðjum degi á föstudegi, hvað gerist þá í höfðinu á honum eða í kringum hann frá þeim tíma sem hann er þarna og er bara hann sjálfur, eins og ég þekki hann? Hvað gerist á þessum tíma? Ókei, eitthvað í höfðinu. Eitthvað veldur því, það hlýtur eitthvað að valda því að hann tekur einhverja ákvörðun. Bara það að fara út af hótelinu, það er eitt, og láta ekki vita af sér. Þetta er ekki langur tími.“

Hún segir þetta vera mjög ólíkt honum. „Hann er búinn að vera í sambandi við og tala við börnin sín daginn áður en hann fer. Hann er venjulegur, hann er rólegur og yfirvegaður, alltaf. Hvað gerist svo? Svo er annað, ég er að gera mér grein fyrir því að kannski fáum við bara aldrei svör. Það er það sem er svo erfitt. En maður má heldur ekki vera að velta sér upp úr því alla daga, eins og ég gerði, og örugglega við öll, að reyna að finna einhvers konar skýringu á því hvar hann er. Það er líka rosalega erfitt.“

Viðtalið við Hönnu Björk er á dagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 21:00.

Nýjast