Mjög ósáttir við skattatillögur

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands, og Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands og fyrrverandi ritstjóri, eru á meðal þeirra sem gagnrýna skattatillögur stjórnvalda harðlega. Eyjan.DV.is og DV.is greina frá.

Vilhjálmur segir að í skattatillögum stjórnvalda felist að bæta við einu skattþrepi til viðbótar sem þýði skattalækkun um einungis 6.750 krónur á mánuði fyrir fólk með 300-900 þúsund í mánaðarlaun. Einstaklingur með 900 þúsund krónur á mánuði fái því sömu krónutöluhækkun og lágtekjumaður sem er með 325 þúsund krónur á mánuði – 6.750 krónur á mánuði.

„Þessar tillögur eru langt undir okkar væntingum um að auka ráðstöfunartekjur lág og lægri millitekjuhópanna í gegnum skattkerfið. Enda duga þessar 6.750 krónur ekki fyrir þeim verðlagshækkunum sem hafa komið bæði frá stjórnvöldum og sveitarfélögum um síðustu áramót, og vantar mikið þar uppá,“ segir Vilhjálmur í samtali við Eyjuna. Hann er einnig ósáttur við að þessi skattalækkun eigi ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2020.

Móðgun og dónaskapur

Gunnar Smári segir fyrirhugaðar skattalækkanir stjórnvalda vera móðgun og dónaskap. Hann hefur boðað til mótmæla á laugardaginn kemur vegna þessa. Mótmælin bera heitið „Hungurgangan“ og vísa til þess að láglaunafólk margt hvert lepur dauðann úr skel undir lok hvers mánaðar, þegar grunnframfærsla þeirra er uppurin.

„Þetta tilboð er móðgun og dónaskapur fólks sem er ekki í neinum tengslum við þann raunveruleika sem fólk býr við í dag. Komið í Hungurgönguna á laugardaginn og mótmælið þessum dónaskap ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins. Laun sem ekki duga fyrir framfærslu eru ofbeldi. Láglaunastefnan er ofbeldi. Láglaunafólkið eru þolendur þess ofbeldis og fyrirtækjaeigendur og ríkisstjórnin eru gerendur,“ skrifar Gunnar Smári innan Facebook hóps Sósíalistaflokksins.

Ekki allt láglaunafólk sem fær 2 prósenta lækkun

Stundin greinir frá því að í kynningu stjórnvalda á skattalækkunum hafi komið fram að skattbyrði lágtekjufólks myndi lækka um 2 prósentustig ef fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum yrðu að veruleika. Í greiningu Stundarinnar segir að þetta sé ekki rétt nema að hluta til. 

Aðeins hluti lágtekjufólks myndi fá 2 prósentustiga lækkun á skattbyrði sinni ef tillögur ríkisstjórnarinnar ná fram að ganga. Þetta er einkum fullvinnandi launafólk sem er með um 300 þúsund krónur í tekjur á mánuði. Tugþúsundir framteljenda sem flokkast sem lágtekjufólk munu fá talsvert minni lækkun skattbyrðar, t.d. lágtekjufólk sem vinnur mikla yfirvinnu. Stundin vísar til talna Hagstofunnar fyrir árið 2017 og bendir á að t.a.m. sé ljóst að lækkun skattbyrðinnar hjá fiskvinnslufólki, ræstingarstarfsmönnum og verkafólki í byggingariðnaði verði að meðaltali nær einu prósentustigi en tveimur.