Mjög jákvæð reynsla túrista af Reykjavík

Ný skoðanakönnun um upplifun ferðafólks:

Mjög jákvæð reynsla túrista af Reykjavík

Í skoðanakönnun sem Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar hefur gert fyrir Höfuðborgarstofu kemur fram að reynsla erlendra ferðamanna af Reykjavík árið 2017 var mjög jákvæð eins og í fyrri könnunum en þó var ánægjan minni að sumarlagi en mælst hefur áður. 

Nú töldu 85% sumargesta og 91,5% gesta utan sumartíma hana hafa verið frábæra eða góða. Einungis 1% sumargesta töldu hana slæma en 14% sumargesta og 8% gesta utan sumars töldu upplifunina sæmilega.

Þegar spurt var um afþreyingu fólks í Reykjavík og skipulagðar dagsferðir frá höfuðborginni sögðust flestir hafa farið á veitingahús í Reykjavík árið 2017 (77% að jafnaði) en 59% verslað.  35% aðspurðra sögðust hafa farið í dagsferð frá Reykjavík, skoðað söfn/sýningar (35%), farið í sund/heilsubað (29%)  eða stundað næturlífið (22%). Færri fóru í skipulagða ferð um Reykjavíkursvæðið (17%), keyptu íslenska hönnun (13%) eða sóttu listviðburði (11%).

Skipulagðar dagsferðir frá Reykjavík fengu hæstu meðaleinkunnina árið 2017 (8,7) en síðan sund/heilsuböð (8,5), ferð um Reykjavík (8,2) og listviðburðir (8,1). Þá söfn/ sýningar (7,8), veitingahús (7,8), íslenskar hönnunarvörur (7,8) og næturlífið (7,5) en verslanir þá lökustu (6,6). 

Fjöldi erlendra gistinátta  í Reykjavík árið 2017 eru  áætlaðar um 5,8 af um 13 milljónum erlendra gistinátta á Íslandi það ár. Jafnframt er áætlað að 44,5% erlendra gistinátta á Íslandi árið 2017 hafi verið í Reykjavík; 56% gistinátta utan sumars og 31,5% yfir sumarmánuðina þrjá. Þá er áætlað að af erlendu gistinóttunum í borginni árið 2017 hafi um 1,9 milljónir verið yfir sumarmánuðina þrjá (33%) en 3,9 utan sumartíma (67%). 

Erlendrar gistinætur í  Reykjavík árið 2017 voru flestar á hótelum (42,9%). Næst komu gistingar í Airbnb (22,9%), á gistiheimilum (11,1%), í öðrum íbúðum en hjá Airbnb (7,4%), hjá vinum/fjölskyldu (2,8%), á tjaldsvæði (2,3%) en síst í camping bílum (1,1%).

Þegar hlutfall erlendra gistinátta í  Reykjavík er skoðað eftir markaðssvæðum árið 2017 kemur í ljós að flestar voru þær meðal gesta frá Norður-Ameríku (30,5%). Næst komu gestir utan helstu markaðssvæða (21,5%) og frá Bretlandi (15,5%). Þá gestir frá Mið-Evrópu (13%), Norðurlöndunum (9%), Suður-Evrópu   (8%)  og  loks  frá Benelux löndunum (2,5%). 

96,5% þátttakenda utan sumartíma og 92% sumargesta árið 2017 kváðust myndu mæla með Reykjavík við aðra.  Eru þær niðurstöður í meðallagi samanborið við fyrri mælingar RRF fyrir Höfuðborgarstofu (2005-2016).

Af sjö stöðum sem spurt var um hvort fólk hefði skoðað árið 2017 fóru flestir um hafnarsvæðið (70%), Laugaveginn (68%) og að Hallgrímskirkju (68%) en síðan í Hörpu (49%), Ráðhúsið (36%) og Perluna (17%). Fæstir lögðu leið sína í Laugardalinn (12%).

Samkvæmt því má lauslega áæta að árið 2017 hafi um 1.420 þúsund erlendir ferðamenn farið eitthvað um hafnarsvæðið, 1.380 þúsund farið um Laugaveginn, um 1.360 þúsund skoðað Hallgrímskirkju,  980 þúsund farið í Hörpu, 720 þúsund í Ráðhúsið, 240 þúsund í Perluna og 140 þúsund farið í Laugardalinn. 

Frá og með mars 2017  voru erlendir gestir beðnir um að gefa gæðum, þjónustu starfsfólks, verðlagi og opnunartímum verslana, sundlauga, veitingastaða og safna/ sýninga einkunn. Einnig vöruúrvali í verslunum.  Niðurstaðan er sú að gæði staðanna og þjónusta starfsfólks fær almennt góða dóma (meðaleinkunn 8,1-8,5). Opnunartímar sundlauga fá góða einkunn (8,3), opnunartímar safna/ sýninga og veitingastaða litlu lægri (7,8) en verslana lakastan (7,2). Verðlag fær sæmilega dóma á söfnum/sýningum og sundstöðum (6,2 og 6,0) en slaka dóma á veitingastöðum (4,4) og verslunum (4,0). Þá fékk vöruúrval í verslunum í borginni þokkalega dóma (7,0).

Nýjast