Misnotuð 9 ára: segir sögu sína

Í þættinum Ég bara spyr sem sýndur verður á Hringbraut kl.20.15 í kvöld, segir Margrét Rún Styrmisdóttir, 18 ára, frá því þegar góðvinur fjölskyldunnar misnotaði hana um langa hríð þegar hún var 9 og 10 ára. Í fyrstu afsakaði gerandinn sinn á því að ósæmilegar snertingar væru ,,óvart” en eftir fyrstu nauðgunina breyttist það og hann hótaði henni alvarlega. Að sögn Guðrúnar H. Bjarnadóttur frá Blátt áfram, er lýsing Margrétar á gerandanum mjög dæmigerð fyrir þær sögur sem börn segja. Gerendur eru góðir og verða vinir barnanna. Þess vegna sé svo brýnt að kenna börnum snemma muninn á því hvað eru góð leyndarmál og hvað eru vond. Fræðsla sé lykilatriði og þar sé staðan í dag sú að foreldrar þurfa að stíga mun meira inní en þeir gera. Þannig sé fræðsla í skólum oft komin langt, þótt hún hafi ekki verið til staðar þegar Margrét Rún var 9 ára. Markmið fræðslunnar sé ávallt að koma í veg fyrir að fleiri börn lendi í misnotkun, ekki sé hægt að bjarga öllum en fræðsla og umræða geti bjargað mjög mörgum. Brot úr þætti kvöldsins má sjá hér að neðan en hann verður endursýndur allan miðvikudag og um næstu helgi. Þátturinn er tileinkaður fjáröflun Blátt áfram sem dagana 26. til 29 maí standa fyrir sölu á vasaljósum sem kosta 2.000 krónur. Kaup á vasaljósunum er liður í átakinu ,,Verum upplýst” og rennur ágóði til forvarnarstarfs samtakanna.

Hér má sjá sýnishorn úr viðtalinu við Margréti Rún.