Minningargrein um Björn í New York Times - Andri snær: „Ég náði að sýna honum bókina mína“

Minningargrein um Björn í New York Times - Andri snær: „Ég náði að sýna honum bókina mína“

Andri Snær Magnason, einn okkar besti rithöfundur, minnist afa síns, Björns Þorbjarnarsonar í fallegum pistli á samskiptamiðlum. Björn var einn fremsti skurðlæknir heims og var hann yfirlæknir á New-York sjúkrahúsinu. Hlaut hann margar viðurkenningar fyrir rannsóknir, læknisstörf og kennslu. Fjallað er um andlát Björns í New York Times.

Björn lést þann 4. október, á útgáfudegi Tímans og vatnið, nýjustu bókar barnabarnsins, en verk Andra Snæs hefur hlotið mikið lof.

Líkt og segir í Morgunblaðinu komst Björn í hringiðu heimsfréttanna árið 1979 en þá skar hann upp Mohammad Reza Pahlavi Íranskeisara sem þá var í út­legð í Banda­ríkj­un­um. Meðal annarra sjúk­linga Björns voru eðlis­fræðing­ur­inn J. Robert Oppenheimer og listamaður­inn Andy Warhol.

Andri snær skrifar: „Björn Thorbjarnarson afi er látinn 98 ára gamall. Hann lést í svefni og var andlega hress fram á síðasta dag. Björn var einn fremsti skurðlæknir á heims á sínu sviði og komst í sviðsljós heimsmiðlanna þegar hann skar upp Íranskeisara árið 1979. Hér er minningargrein um hann í New York Times, talsverð umfjöllun um dauða Andy Warhol sem lést eftir aðgerð afa. Fjölmiðlar sögðu þetta hafa verið rútínuaðgerð en rannsóknir leiddu í ljós að veikindi hans voru mun alvarlegri.“

Það mál var rannsakað vegna kröfu ættingja Warhol en saksóknari New York lýsti því yfir að ekkert benti til þess að um glæpsamlegt athæfi væri að ræða og var málið látið niður falla. 

Í minningargreininni í New York Times segir að Dr. Thorbjarnarson hafi ávalt kynnt sig með eftirfarandi hætti: „Thor-bee-ON-a-son” til að auðvelda samstarfsmönnum að festa það á minnið.  

Andri snær segir um afa sinn:

„Það var alltaf ævintýralegt að heimsækja hann í stóra hvíta húsið í New Jersey og þrátt fyrir fjarlægð náði ég að heimsækja hann alloft í seinni tíð.

Ég hitti hann fyrir þremur vikum á heimili hans og Margaret Thorbjarnarson eiginkonu hans í New Jersey. Hann var fótfúinn en stálminnugur og við náðum að spjalla um heima og geima í nokkra klukkutíma. Ég náði að sýna honum bókina mína á tölvuskjá, en Björn afi, systir hans og John Thorbjarnarson sonur hans spila stórt hlutverk í henni.

Afi lést á útgáfudegi bókarinnar þann 4. október. Ég votta móður minni Kristín Björnsdóttir og systrum hennar Guðrún Björnsdóttir, Lisa Thorbjarnarson Enslow og Kathy Thorbjarnarson samúð mína.“

Nýjast