Minnihlutinn í borginni fiskar ekki á eyþór og vigdísi

 Ekki þarf að koma á óvart þó fylgi Samfylkingar í borginni minnki samkvæmt skoðanakönnun Zenter sem Fréttablaðið birtir í dag. Linnulausar árásir hafa verið á borgarstjórann vegna framúrkeyrslu vegna endurbyggingar húsa í Nauthólsvík. Það mál er auðvitað óheppilegt og erfitt að svara fyrir það. Borgarstjóri hefur fengið á sig gagnrýnina vegna þessa máls sem hefur fyllt fjölmiðla undanfarið. Einkum hefur Morgunblaðið farið hamförum í gagnrýni sinni á borgarstjórnarmeirihlutann. Blaðið hefur algerlega misst sig út af málefnum Reykjavíkurborgar eftir að ljóst varð að 25% hluthafi blaðsins fengi ekki að verða borgarstjóri. Fylgi Samfylkingar minnkar frá kosningunum sl. vor úr 25.9% í 21.0%. Hins vegar eykst fylgi hinna meirihlutaflokkanna verulega og er nú samtals 51.3% en var 46.5% í kosningunum vorið 2018.

 

Það er fleira athyglisvert við þessa könnun. Þrátt fyrir mikla gagnrýni á borgarstjórnarmeirihlutann að undanförnu hefur minnihlutinn ekki uppskorið auknar vinsældir. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir Eyþór Arnalds og Vigdísi Hauksdóttur sem hafa haft sig mest í frammi. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi, fer úr 30.8% og niður í 29.6%. Missir þannig 1.2% fylgi. Miðflokkurinn stendur í stað, Flokkur fólksins bætir við sig hálfu prósenti en Sósíalistaflokkurinn tapar miklu fylgi. Fer úr 6.4% og niður í 3.7% - tapar nærri því helmingi þess fylgis sem flokkurinn náði í borgarstjórnarkosningunum sl. vor. Minnihlutinn er nú með samtals 44.5% fylgi samkvæmt könnun Zenter og hefur tapað 3.1% frá í vor.

 

Þegar á heildina er litið hljóta þessar niðurstöður að vera gífurleg vonbrigði fyrir minnihlutann í Reykjavík sem getur ekki einu sinni aukið vinsældir sínar þegar erfið mál koma upp eins og þau sem hafa verið í umræðunni að undanförnu eins og framkvæmdirnar í Nauthólsvík og vandræðagangurinn hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Dagur hefur verið í skotlínunni og flokkur hans geldur þess. En þá auka hinir meirihlutaflokkarnir við sig fylgi í staðinn og það verulega. Samtals fá meirihlutaflokkarnir aukið fylgi frá því í vor sem nemur 4.8 prósentustigum sem er mikill og góður árangur við þessar aðstæður.

 

Þarf að koma á óvart að kjósendur treysti ekki minnihlutaflokkunum? Nei. Eyþór Arnalds hefur ekki aukið virðingu sína eftir að hann hóf störf sem borgarfulltrúi. Hann sýnir enga leiðtogahæfileika og er fastur í nöldri og svekkelsi. Ljóst að hann á erfitt með að sætta sig við það að hafa ekki náð því að verða borgarstjóri. Ekki þarf að hafa mörg orð um Vigdísi Hauksdóttur. Kjósendur kæra sig ekki um kjánapólitík hennar sem skilar engu. Sósíalistaflokkurinn hefur hrunið í fylgi sem sýnir að árangur Sönnu sl. vor var væntanlega bara stundarskot sem endist ekki. Fólk er farið að sjá í gegnum flokkinn og aðstendur hans og færir sig að nýju yfir í Vinstri græna.

 

Þá er einnig athyglisvert að Framsóknarflokkurinn kemst ekki á blað í Reykjavík. Hann virðist vera týndur og tröllum gefinn í höfuðborginni.

 

Rtá.