Mikilvægi íslensku flugfélaganna er gríðarlegt

Sorglegt er að fylgjast með því hve mikið hlakkar í mörgum vegna vondra frétta sem hafa borist frá Icelandair. Félagið tilkynnti um verri afkomu á öðrum ársfjórðungi og lækkaði afkomuspá sína út árið um marga milljarða. Ástæður verri afkomu eru margvíslegar. Þannig hefur eldsneytisverð á heimsmarkaði hækkað um 50% á nokkrum mánuðum, samkeppni hefur aukist yfir Atlantshafið og sætanýting er lakari en ráð var fyrir gert. Gagnrýnt hefur verið hve seint þessar upplýsingar koma fram en það er tilefni til að ráðstafanir verði gerðar innan félagsins til að tryggja að stjórnendur hafi öruggari yfirsýn yfir reksturinn. Það er hins vegar leiðinlegt að fylgjast með umræðunni í fjölmiðlum og almennt í þjóðfélaginu. Það er eins og ýmsir fagni vondum fréttum af rekstri Icelandair. Hvað veldur því? Er það öfund eða almennur illvilji eða býr eitthvað annað að baki? Þeim spurningum verður ekki svarað hér.

 

Mikilvægt er að fólk geri sér ljóst að án Icelandair og WOW hefði ekki orðið sá uppgangur í ferðaþjónustu hér á landi sem raun ber vitni á undanförnum árum.

 

Mikilvægt er að fólk geri sér ljóst að án þessa mikla uppgangs í ferðaþjónustu síðustu 7 árin hefði ekki náðst hagvöxtur á Íslandi. Hann hefur verið mikill hin síðari ár og hann má allan rekja til ferðaþjónustunnar.

 

Mikilvægt er að fólk geri sér ljóst að ferðaþjónustan bjargaði Íslandi upp úr því djúpa fari sem þjóðin komst í eftir hrunið 2008. Vegna uppgangs í ferðaþjónustu komust fjárfestingar af stað eftir hrunið, atvinnuleysi var eytt, kaupmáttur fólks jókst til mikilla muna, hagvöxtur mældist að nýju og gjaldeyrisvarasjóðir þjóðarinnar efldust þannig að unnt reyndist að afnema gjaldeyrishöft sem komið var á skömmu eftir hrunið.

 

Vert er að hafa þetta allt í huga áður en fólk kveður upp þunga dóma yfir Icelandair þó félagið þurfi nú að fást við vissa tímabundna erfiðleika sem ætla má að takist að yfirvinna á þessu ári. Til lengri tíma litið eru horfur félagsins bjartar.

 

Hitt stóra flugfélagið á Íslandi, WOW, hefur vaxið með æfintýralegum hætti. Félagið flýgur nú til 40 áfangastaða víða um heim. Á nokkrum árum hefur WOW orðið þessi risi nánast upp úr engu. Afrekið er enn meira í ljósi þess að félagið er í eigu eins manns, Skúla Mogensen, sem hefur byggt fyrirtækið upp af dirfsku, framsýni og viðskiptalegri snilli. Vöxtur WOW er slíkur að fram hefur komið að farþegafjöldinn óx frá júní í fyrra til júní á þessu ári um 49%. Þessu fylgja vaxtarverkir og nú er orðrómur um að Skúli sé að fá til liðs við sig erlenda fjárfesta sem komi með aukið hlutafé inn í flugfélagið til að styrkja það og styðja við áframhaldandi vöxt. Það væru að sönnu góðar fréttir sem bæri að fagna.

 

Bæði WOW og Icelandair eru íslensku samfélagi svo mikilvæg að við þolum ekki að þau verði fyrir áföllum. Þau eru bæði orðin of stór til að mega gera mistök. Menn ættu frekar að hafa það í huga í stað þess að breiða út illmælgi og róg um þessi mikilvægu fyrirtæki. Ástæða er til að fara varlega í umfjöllunum og dómum.

 

Vonandi styrkir WOW sig með samstarfi við öfluga fjárfesta og vonandi læra menn hjá Icelandair af þeim mistökum sem hafa verið gerð og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að vinna trúverðugleikann til baka. Bæði þessi mikilvægu fyrirtæki þurfa á því að halda.

 

Íslendingar geta ekki án WOW og Icelandair verið.

 

Rtá.