Mikill verðmunur á raforku

Auður Alfa Ólafsdóttir verkefnastjóri hjá Verðlagseftirliti Alþýðusambands Íslands skýrði frá könnun á rafmagnskostnaði Íslendinga sem sambandið gerði. Hann er æði misjafn milli raforkufyrirtækja enda samkeppnisrekstur til staðar þegar kemur að orkusölunni sjálfri. Auður Alfa segir könnunina leiða í ljós að fólk og fyrirtæki á landsbyggðinni séu að greiða miklu meira fyrir rafmagn en á höfuðborgarsvæðinu, þar sé allt að 96 prósent munur á. Ofan á það leggist 24,5 prósent virðisaukaskattur.

Rafmagnskostnaður er tvískiptur að sögn Auðar, þ.e. annars vegar raforkufyrirtæki sem keppa á markaði vegna orkusölu og fólk getur valið hvert þeirra það stundar viðskipti við og hins vegar flutningur og dreifing raforku, sem fólk hefur ekki val um. „Við erum að sjá töluverðar verðhækkanir á síðustu tveimur árum, alveg upp í 13,4 prósent í orkusölunni þar sem fólk hefur val og svo er allt að 19,4 prósent verðhækkun á síðustu tveimur árum í þeim tilfellum þar sem fólk hefur ekki val um við hvern þeir skipta“, segir Auður Alfa.

Verðlagseftirlit ASÍ gerði sambærilega könnun fyrir tveimur árum og þá hafði rafmagn hækkað töluvert líka. „Við erum að sjá þessar verðhækkanir aftur og aftur, töluvert langt umfram verðlag“, segir Auður Alfa. Þau velta því fyrir sér hvað býr að baki en hafa ekki fengið nein svör við því frá hlutaðeigandi aðilum.

Sigmundur Ernir veltir því upp hvort fólk sé ekki mikið að hugsa um þennan samkeppnisrekstur miðað við margt annað eins og t.d. tryggingafélög, símafyrirtæki og fleira. Auður Alfa telur að svo sé. Hún segir að það séu bara nokkur ár síðan fólk gat farið að velja, a.m.k. að hluta til, hvernig það kaupir raforku. Til þess að ýta undir samkeppni verði fólk að vera virkir neytendur og kynna sér hverjir séu að bjóða upp á bestu kjörin.

Auður Alfa telur að margir viti ekki að það sé í boði að skipta um raforkufyrirtæki. Þó hún hvetji fólk til að kynna sér þessi mál til hlítar bendir hún einnig á að lítill verðmunur sé á milli fyrirtækja, sem gefur til kynna að það sé skortur á samkeppni hérlendis.

Auður Alfa er gestur Sigmundar Ernis í þættinum 21 í kvöld, sem hefst klukkan 21.

Könnun Verðlagseftirlitsins er að finna á heimasíðu ASÍ.