Mikill rússíbani af erfiðum tilfinningum

Ari Eldjárn var gestur Sigmundar Ernis í Mannamáli í gærkvöld:

Mikill rússíbani af erfiðum tilfinningum

Ari Eldjárn, vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar, var í persónulegu samtali  við Sigmund Erni í viðtalsþættinum Mannamáli í gærkvöld. Ari ræddi þar meðal annars bræðramissinn, en tveir bræður hans, Ólafur og Kristján, fóru báðir alltof snemma.

„Tíminn náttúrulega líður og það hjálpar manni alltaf,“ segir Ari. Aðspurður um hvernig hann hafi unnið úr þessum áföllum segir hann: „Ekkert eitthvað meðvitað eða yfirvegað neitt sérstaklega. Ég held að í gegnum veikindin hjá þeim báðum þá hafi kannski aukist hvernig maður er, lætur hverjum degi nægja sína þjáningu. En ég á því miður ekkert gott svar. Þetta er náttúrulega rosalega mikill rússíbani af erfiðum tilfinningum og það er mér miklu fróðara fólk sem getur kortlagt það miklu betur. Alltaf þegar maður reynir að negla það niður, „súmmera“ það eitthvað upp þá finnst manni það vitlaust seinna.“

„Auðvitað breytir þetta manni og maður veit ekkert hvernig þetta hefði verið ef þetta hefði ekki komið upp á, ég hef ekki hugmynd. Þetta er bara „Life is what happens to you when you‘re busy making other plans,“ þetta er bara frábær setning og lýsir öllu þessu í hnotskurn,“ bætir Ari við.

Viðtalið við Ara í heild sinni er að finna hér:

Nýjast