Mikill munur á skattlagninu á bjór og vín: framleiðendur ósáttir

Eins og flestir vita leggur ríkið há gjöld á áfengi hér á landi, þau hæstu í Evrópu. En færri vita kannski að þessi gjöld eru mismunandi eftir tegundum áfengis. Hæstu gjöldin eru lögð á sterkt vín, næsthæstu á léttvín en léttvín bera lægstu gjöldin.

Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Sigurði Pétri Snorrasyni, stofnanda RVK Brewing Company og formanni Samtaka íslenskra handverskbrugghúsa, að hann viti ekki hvað rök liggi þarna að baki en þau eigi að minnsta kosti ekki við lengur.

Mikil bylting hefur orðið í bjórframleiðslu hér á landi á síðasta áratug og sífellt fleiri brugghús hafa sprottið upp. Margir bjórframleiðendur telja ótækt að hærri gjöld séu lögð á bjór en léttvín og vilja að lagaumhverfið verði tekið til skoðuna.

„Breytinga er þörf. Fyrsta skrefið ætti auðvitað að vera að lækka áfengisgjöld á bjór niður á sama stig og er hjá léttvínum. Ekki síst til að styðja við bakið á innlendri framleiðslu. Það myndi muna gríðarlega miklu fyrir okkur,“ segir Sigurður

Af stórum bjór þarf að greiða tæplega 20 krónum meira í skatta og gjöld en af sambærilegri einingu af víni. Þetta skilar sér síðan í hærra verði til neytenda.

„Ég og fleiri framleiðendur erum að skapa störf og nýsköpun um allt land, ráða fólk í vinnu og fá til okkar gesti og túrista. Á sama tíma búum við við mjög óþjált umhverfi áfengisgjalda sem er mjög íþyngjandi. Hér er mun erfiðara að framleiða metnaðarfulla handverksbjóra enda eru þeir gjarnan með hærri áfengisprósentu. Fyrir vikið verður öll framleiðsla einsleitari en ella. Það er mjög erfitt að standa undir þeirri grósku sem er að verða alls staðar í kringum okkur í þessu umhverfi.“

Er haft eftir Sigurði sem bætti við að rétt væri að lækka áfengisgjöld á bjór til samræmis við gjöld af léttvíni.