Mikil verðmæti í gamla bænum

Skipulag miðbæjar Reykjavíkur hefur verið töluvert til umfjöllunar upp á síðkastið, enda miðbærinn að taka algjörum stakkaskiptum með mörgum nýbyggingum og heilu nýju hverfi fyrir sunnan Hörpu. Hilmar Þór Björnsson arkitekt er gestur Björns Jóns Bragasonar í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hann ræðir þetta nýja skipulag.

Hann segir ekki verið að framfylgja aðalskipulagi borgarinnar í þessu tilfelli. „Aðalskipulagið var samþykkt á haustmánuðum 2013 og þá var tekið sérstaklega á miðbænum, eða borginni innan Hringbrautar. Það var sagt að það skyldi ekki reisa hærri hús en fimm hæðir og svo voru nokkrir framkvæmdareitir, það var sérstaklega fjallað um það. Svo var líka annað sem er áréttað á nokkrum stöðum, að nýbyggð og ný hús, skyldu vera í samræmi við það sem fyrir er. Þ.e.a.s. að það yrði alltaf að taka tillit til staðarandans og þeirrar Reykjavíkur sem við þekkjum. Þetta er mjög mikils virði af því að það liggja svo mikil verðmæti í gamla bænum að það gerir sér enginn grein fyrir því hvað það er mikið. Ég held að fólk skilji það bara ekki,“ segir Hilmar Þór.

„Svo gerist það að þetta fer allt saman af stað og þá er heppilegast að taka dæmi af svæðinu norðan Tryggvagötu, sem er í beinu framhaldi af Kvosinni. Kvosin var s.s. skipulögð með mörkum við Tryggvagötu árið 1988, staðfest af ráðherra, og þá voru lagðar línurnar um staðarandann. Reyndar, hugtakið var ekki til þá, staðarandi. En þetta var á viðkvæmum tímum, Kringlan var að opna og þá ætluðu menn að reyna að styrkja miðbæinn, einmitt með sérstöðu hans. Taka góðu hlutina í miðbænum og styrkja þá. Gera miðbæinn sérstakan og eftirsóknarverðan, út af sérstöðu sinni. Miðbærinn í Reykjavík, Kvosin, miðbær Hringbrautar er hvergi annars staðar til í heiminum, hún er bara til í Reykjavík. Þess vegna þarf að fara mjög varlega með þetta og styrkja kostina og draga úr göllunum,“ bætir hann við.  

Nánar er rætt við Hilmar Þór í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Þess má geta að Hilmar Þór heldur úti bloggsíðu um arkitektúr og skipulag, Blog.DV.is