Mikil sorg á þórshöfn – „nú er allt farið [...] okkur finnst þetta hundfúlt“

Tíu nemendur Grunnskólans á Þórshöfn eru í sárum eftir að í ljós kom að ekkert verður af skólaferðalagi þeirra til Tenerife um páskana. Ástæðan er gjaldþrot WOW air. Ferðin til Tenerife var staðgreidd með millifærslu tveimur vikum áður en WOW air var úrskurðað gjaldþrota. Morgunblaðið greinir frá þessu. Krakkarnir sem eru tíu í bekknum höfðu safnað í nokkur ár.

„Við vorum með kökubasar, flöskusöfnun, spilakvöld og fleira öll þessi ár en nú er allt farið,“ sögðu krakkarnir sem hlökkuðu til að komast í sólina eftir dimman vetur. Nú eiga þau aðeins 60 þúsund og fara líklega til Vestmannaeyja en jafnvel sú ferð er einnig of dýr.

„Okkur finnst þetta bara hundfúlt, okkur langaði svo mikið út í sól og hita eftir að hafa baksað við að safna í öll þessi ár.“