Miðflokkurinn jafnstór vg í borginni

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík mælist með ríflega 30 prósent fylgi og átta borgarfulltrúa í nýrri könnun Fréttablaðsins og frettabladid.is. Samfylkingin fengi tæplega 26 prósent og 7 fulltrúa.

Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn með tæplega 11 prósent fylgi og tvo fulltrúa. VG og Miðflokkurinn mælast svo nánast jöfn með tæplega átta prósent fylgi og tvo fulltrúa hvor flokkur. Viðreisn er síðan með rúmlega sjö prósent fylgi í könnuninni og hugsanlega tvo fulltrúa en Framsóknarflokkurinn með 3,6 prósent fylgi er nærri þvi að ná öðrum fulltrúa Viðreisnar til sín.

Núverandi meirihluti Samfylkingar, Pírata og VG, fengi 11 menn kjörna af 23 og myndu því þurfa að fá fjórða flokkinn til liðs við sig til að ná meirihluta.

Helstu breytingar frá Fréttablaðskönnun 10. apríl eru að Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn bæta heldur við sig, en Flokkur fólksins og VG dala.

Allt að 17 framboð hyggja á framboð í borgarstjórnarkosningunum 26. maí, að því er kemur fram á frettabladid.is. Þar má nefna að Kvennaframboðið nýtur 1,4 prósenta stuðnings í könnuninni, Sósíalistaflokkurinn er með eitt prósent og Flokkur fólksins eitt prósent. Önnur framboð eru með minni stuðning. Samtals nefna 7,4 prósent þeirra sem afstöðu taka í könnuninni önnur framboð en þau sem myndu fá kjörna menn.