MeToo ráðstefnu frestað að beiðni Miðflokks

MeToo ráðstefnu frestað að beiðni Miðflokks

MeToo ráðstefnu Alþingis, sem átti að fara fram á þingsetningardegi 21. janúar, hefur verið frestað um nokkrar vikur þar sem Miðflokkurinn vildi ekki vera með. 

Fréttablaðið.is greinir frá og segist hafa heimildir fyrir því að Miðflokkurinn hafi ekki viljað taka þátt í ráðstefnunni á þessum tímapunkti. Reynt verður að fá alla að borðinu síðar meir, en framkvæmdastjórar flokka á þingi höfðu undanfarið unnið að skipulagningu ráðstefnunnar.

„Framkvæmdastjórar ákváðu að verða við ósk sem fram kom eftir að ljóst varð að ekki var samstaða allra flokka um að halda ráðstefnuna 21. janúar eins og áætlað hafði verið. Ráðstefnan er áfram á dagskrá en henni er aðeins frestað um nokkrar vikur,“ segir Björg Eva Erlendsdóttir framkvæmdastjóri VG, í samtali við Fréttablaðið.

Björg Eva bætir því við að rök framkvæmdastjóra þingflokkanna fyrir frestun eru þau að MeToo ráðstefna á þingsetningardegi gæti beint athyglinni að óútkljáðum málum einstaklinga í tveimur flokkum á Alþingi, fremur en því stóra samfélagslega vandamáli sem samfélagið glímir við.

Þar vísar hún til ósæmilegra ummæla Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, þingmanna Miðflokksins, um kvenmenn á Klaustursupptökunum og einnig til Ágústs Ólafs Ágústssonar, sem sakaður hefur verið um kynferðislega áreitni. Allir þrír hafa tekið sér tímabundið leyfi frá þingstörfum.

Nýjast