Mennirnir sem vissu of lítið

Það gerist ýmislegt skemmtilegt og fróðlegt á Alþingi. Sumir þar vita mikið, meðallagið gildir hjá öðrum, en svo eru sumir, sem vita fulllítið. Þetta er auðvitað eins og gengur og gerist, en of lítil þekking er frekar óheppileg akkúrat á Alþingi.

Í fyrirspurnatíma 7. júní spurði einn þingmanna Miðflokksins fjármálaráðherra í sakleysi sínu út í Arion banka. Sölumál og verðgildismál eignarhluta ríkisins. Byggði hann fróðleiksþörf sína á blaðagrein sem hann hafði hnotið um. Ég verð að viðurkenna að fyrir mér var hugleiðing og spurning þingmannsins frekar óljós.

Enda brást fjármálaráðherra ekki við hinn versti við, kannski, en svona allólundarlega. Sagði hann að þingmaðurinn vissi ekki nokkurn skapaðan hlut um málið og ráðlagði honum að lesa fleiri blaðagreinar og kynna sér málið betur. Þetta virtist góð ráðlegging en á þá auðvitað líka við um aðra.

Í blöðunum var svo fjallað um þetta m.a. með fyrirsögninni „Segir þingmann ekki vita nokkurn skapað hlut um sölu Arion“. Þetta var vitaskuld ekki skemmtilegt fyrir þingmanninn sem þó er maður mikið og margmenntaður og reyndur víða að úr heiminum, líka úr Miðausturlöndum. 

Ekki veit ég hvort sjóndeildarhringur fjármálaráðherra nær svo langt. Alla vega náði hann ekki til annarra Norðurlanda – Svíþjóðar – þennan sama dag.

Seinna sama dag fitjaði nefnilega góður og gegn þingmaður Flokks fólksins, doktor, upp á fárinu sem fylgir verðtryggðum lánum, einkum þar sem húsnæðiskostnaður er hafður með í vísitölu, en þetta keyrir hana upp án þess að verðhækkanir varnings og þjónustu komi til. 

25 aðrar þjóðir Evrópu hafa þetta því ekki svona. Þær halda húsnæðiskostnaði utan vísitölu, enda ræðst hann ekki af verðlagshækkunum heldur framboði og eftirspurn eftir lóðum, skipulagshraða borgar- og bæjaryfirvalda o.s.frv. 

Doktorinn var því að berjast fyrir því að húsnæðiskostnaður yrði tekinn út úr framfærsluvísitölu, en þáttur hans í vístölunni hefur valdið skuldurum landsins, sem álpuðust til að taka vísitölubundin lán, stórfelldum – milljarðatuga – aukaútgjöldum. 

Barátta doktorsins er því gott mál, sem undirritaður hefur talað fyrir og styður – líka reyndar fyrrnefndur þingmaður, sem fjármálaráðherra snupraði – en þetta kerfi myndar eftirfarandi vítahring:

• Bæjar- og skipulagsyfirvöld eru síðbúin með skipulag nýrrar byggðar og úthlutun lóða.

• Skortur á lóðum leiðir til hækkunar á húsnæði, bæði til kaups og leigu.

• Þessi aukni húsnæðiskostnaður er reiknaður inn í framfærsluvísitölu.

• Það þrýstir upp verðbólguvísitölu.

• Verðbólga þrýstir upp vöxtum.

• Hækkandi vextir auka tilkostnað fyrirtækja, sem aftur leiðir til kostnaðarhækkunar og verðhækkana.

Svona rúllar þetta áfram. Gáfulegt kerfi, eða hitt þó heldur.

Engin furða að Lars Jonung, prófessor frá Lundi, sem peningastefnunefnd fékk til að meta íslenzkt hag- og peningakerfi, hafi sagt að við gætum öll verið miklu ríkari, ef hag- og peningastjórn landsins hefði verið stöðugri og vitrænni. 

Þetta átti auðvitað ekki aðeins við um vísitöluútreikninginn, heldur líka og sérstaklega um gjaldmiðilinn, krónuna, sem allir sjá að er stórfelldur bölvaldur, svikatól, nema íhalds- og afturhaldsöflin; Sjálfstæðismenn, Framsókn, Seðlabankastjóri og nú kannske VG líka.

En aftur inn á þing 7. júní.

Fjármálaráðherra þurfti auðvitað að láta til sín taka í umræðunni um vístöluna, enda á þetta að vera hans sérfag og sterkasta hlið. Hann vitnaði til þess, að húsnæðisvandi væri mikill í Svíþjóð – þó að þetta væri nú ekki beint sú umræða – og mikill fjöldi ungmenna þyrfti að búa heima hjá foreldrum sínum í „evru-landinu Svíþjóð“, þar sem „evru-vextir“ réðu, eins og ráðherra orðaði það.

Þetta virkaði flott útspil hjá fjármálaráðherra og átti þetta auðvitað að sanna að evra væri slæm en krónan góð, þó að leiðin að þeim ætlaða sannleika væri nokkuð löng.

Það var bara einn galli á gjöf Njarðar: Gjaldmiðill Svía er sænsk króna, ekki evra!

Höfundur er alþjóðlegur kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir.