„Menn skilja þetta ekki“

Kári Stefánsson og Þórarinn Tyrfingsson:

„Menn skilja þetta ekki“

Þórarinn Tyrfingsson og Kári Stefánsson
Þórarinn Tyrfingsson og Kári Stefánsson

Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar segir samfélagið allt verða að taka ábyrgð á því að fíklum og alkóhólistum berist hjálp. “Þegar fíkillinn er tilbúinn að þiggja meðferð verður hún að vera honum opin strax”, segir Kári og nefnir í því sambandi að heilasjúkdómur eins og fíknisjúkdómur sé þannig að viljinn einn og sér dugi ekki hjá einstaklingnum heldur þarf umhverfið að hjálpa þeim sem eru veikir og geta ekki ráðið sér sjálfir vegna fíknar.

Kári og Þórarinn Tyrfinsson einn stofnenda SÁÁ og fyrrverandi yfirlæknir á Vogi ræða um fíkn og alkóhólisma hjá Lindu Blöndal í þættinum 21 í gærkvöldi en vel yfir 500 manns er á biðlista á Vogi. Þórarinn segir biðlistann skýrast m.a. af þeirri einföldu ástæðu að Íslendingum hafi fjölgað og fjármagn fáist ekki til að sinna þessari heilbrigðisþjónustu sem hvergi annars staðar sé til staðar á landinu. Landsspítalinn tekur eingöngu við þeim sem eru með bæði fíkn og geðsjúkdóm eða í mikilli sjálfsvígshættu.

Þórarinn segir að mesta forvörnin gegn áfengis-og vímuefnavanda, sem skaðar allt samfélagið, sé einmitt sjúkrahúsið Vogur. Með því má forða fjölda manns frá ýmsum sjúkdómum og spara landspítalanum gríðarlega mikla peninga. "Menn bara skilja þetta ekki", segir Þórarinn.

Kári segir að fíknisjúkdómurinn sé mesta ógnin við velferð þjóðarinnar og þeir sem verði veikir séu flestir á þeim aldri þegar þeir eigi að gera samfélaginu sem mest gagn. Fordómarnir séu samt enn svo miklir að peningar fáist ekki í heilbrigðisþjónustuna sem þurfi. Þjóðin þarf að girða sig í brók og Alþingi þarf að refsa fyrir aðgerðarleysið, segir Kári.

1.700 manns lagðist inn á Vog í fyrra og innlagnirnar voru alls 2.200 – sumir koma oftar en einu sinni. Á hverju ári koma um 600 manns í sína fyrstu meðferð á Vogi.

Ríkissjóður kemur takmarkað að rekstri meðferðar hér á landi: Að reka Vog kostar rúmlega 925 milljónir á ári – framlag ríkisins er 695 milljónir, rekstur Víkur (eftirmeðferðar í 28 daga) kostar yfir 327 milljónir og framlag ríkisins er 219 milljónir. Göngudeildin í Efstaleiti  kostar 178 milljónir en ríkisframlag til hennar er ekkert.  Einn dagur á Vogi fyrir einn mann kostar rúmlega 41 þúsund krónur.

Nýjast