Með stungusár eftir slagsmál í Breiðholti

Með stungusár eftir slagsmál í Breiðholti

Í gær, rétt eftir klukkan 18, var lögreglunni tilkynnt um líkamsárás í Breiðholti. Ágreiningur og slagsmál höfðu átt sér stað milli tveggja manna og var annar með stungusár á handlegg. Hann vildi þó enga aðstoð frá lögreglu eða sjúkraliði. Maðurinn sem er grunaður um að hafa veitt áverkann var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar er einnig greint frá þremur tilvikum þar sem lögreglan stöðvaði ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna. Bifreið eins þeirra var enn á nagladekkjum.

Þá var tilkynnt um ölvaðan mann veitast að fólki við Sundhöll Reykjavíkur. Maðurinn var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu. Maðurinn er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum.

Auk þessa voru afskipti höfð af tveimur ungum mönnum í kyrrstæðri bifreið. Mennirnir viðurkenndu að hafa verið að neyta fíkniefna og fundust ætluð fíkniefni hjá þeim. Annar þeirra kvaðst eiga þau og er grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna.  

Nýjast