Með stærri slysum í sögu breta

„Menn voru ekki búnir að hugsa þetta til enda. Ég held að þetta hljóti að teljast til stærri slysa í sögu Breta, þessi ákvörðun sem var tekin með þessum hætti,“ segir Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar og vísar þar til tilurðar Brexit, sem byrjaði sem ágreiningsmál innan Íhaldsflokksins en endaði í þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra, sem er Evrópusinni.

Í sama streng tekur Kristján Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðingur. „Þetta er svona frekar mikið frávik frá því sem maður á að venjast og allt frekar illa ígrundað frá byrjun.“ Hann bætir því við að þjóðaratkvæðagreiðslan sem Cameron lagði til hafi átt að leggja deilurnar innan flokksins endanlega til hvílu en að það hafi verið afskaplega vanhugsað af hálfu hans að gefa sér hvernig málið myndi fara.

Jón Steindór og Kristján eru gestir Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem þeir ræða Brexit.

Eins og greint var frá í gær var Brexit samningur Theresu May kolfelldur í neðri deild breska þingsins í gærkvöldi. Vegna þessa tekur við óvissa um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu þann 29. mars næstkomandi. Vera kann að útganga án samnings muni eiga sér stað og hugsanlega verður hætt við útgöngu. Þá er ekki útilokað enn að hægt sé að semja að nýju við Evrópusambandið um útgöngu.

„Menn virðast vita hvað þeir vilja ekki en enginn veit almennilega hvað hann vill,“ segir Jón Steindór.

Nánar er rætt við Jón Steindór og Kristján í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.