Með hjarta úr gulli - dóttir þórönnu grét af gleði: sjáðu myndbandið - „aldrei á ævi minni fundið fyrir jafn miklu þakklæti“

Þóranna Friðgeirsdóttir greindi frá því að hjóli dóttur hennar hefði verið stolið. Var dóttir Þórönnu niðurbrotin þegar í ljós kom að ósvífinn einstaklingur hafði brotið upp lás á viku gömlu hjóli og stolið því.

Dóttir hennar hafði byrjað síðasta sumar að safna fyrir hjólinu og í síðustu viku uppskar hún laun erfiðisins og keypti hjól sem kostaði 70 þúsund krónur. Hafði stúlkan vart stigið af hjólinu síðan og læst því samviskusamlega á hverju kvöldi.

En það er líka gott fólk í samfélaginu. Á vef DV er greint frá því að Þóranna hafi fundið fyrir miklum stuðningi. Hún segir:

„Mig hefur skort orð yfir örlætinu, samkenndinni og kærleikanum sem ég hef fundið fyrir síðastliðinn sólarhring.“

Hópur fólks tók sig saman og á örskotsstund var búið að safna fyrir nýju hjóli fyrir stúlkuna. Þóranna segir:

„Ég sat skjálfandi og stjörf í gærkvöldi að reyna að koma höfðinu mínu utan um þetta allt saman. Ég var og er í algjöru sjokki.“

„Aldrei á ævi minni fundið fyrir jafn miklu þakklæti, það er nánast yfirþyrmandi.“

Að lokum segir Þóranna frá hjólakaupunum, en hún er afar þakklát öllum sem hjálpuðu til. Hér að neðan má sjá mynd og myndband af því þegar dóttir hennar fær nýja hjólið.